Fjölmenni lét rigninguna ekki á sig fá og tók þátt í kröfugögnu á baráttudegi verkafólks, 1. maí 2017. Öryrkjabandalag Íslands bauð til súpuveislu í Sigtúni 42 undir hádegi. Þar snæddu gestir kjöt- og grænmetissúpu áður en farið var fylktu liði niður á Hlemm þaðan sem kröfugangan lagði af stað kl. 13:30.
Þátttaka Öryrkjabandalags Íslands á þessum mikilvæga degi hefur vaxið stig af stigi á síðustu árum og í ár var engin undantekning gerð á því. Málefnahópur ÖBÍ um kjaramál hafði umsjón með deginum fyrir hönd bandalagsins.
Yfirskrift göngunnar að þessu sinni var: „Lúxus eða lífsnauðsyn? Fátækt útilokar fólk frá samfélaginu.“
Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, ávarpaði síðan útifund á Austurvelli. Í ræðunni tók Ellen fram að hún talaði þar sem formaður Öryrkjabandalags Íslands en ÖBÍ aðhylltist engan stjórnmálaflokk umfram annan.
„Við vekjum athygli á því að fjöldi Íslendinga þarf að velja á milli hversdagslegrar og jafvel lífsnauðsynlegrar vöru á degi hverjum, vegna þess að framfærsla þeirra dugar ekki fyrir öllu því sem til þarf að lifa mannsæmandi lífi,“ sagði Ellen. „Dæmi eru um að fólk þurfi að velja á milli þess að kaupa sér pensilín eða fara í sund með börnin.“
Ellen gagnrýndi í ræðu sinni fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og áform um starfsgetumat. Þá lagði hún áherslu á mikilvægi þess að lögfesta Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Ræða Ellenar Calmon, formanns ÖBÍ, í heild sinni:
Sælt veri fólkið, kæru félagar og vinir,
Áður en ég hef tölu mína vil ég nefna það að ég tala hér sem formaður Öryrkjabandalags Íslands en ÖBÍ aðhyllist engan stjórnmálaflokk umfram annan.
Aðildarfélög ÖBÍ eru 41 talsins sem telja um 29.000 félagsmenn eða um 9% þjóðarinnar og tilheyra öllum mögulegum stjórnmálaflokkum og hreyfingum eða ekki. Þetta eru félög fatlaðs fólks, langveikra og aðstandaenda þeirra.
Ég er hér til að tala máli ÖBÍ – tala fyrir þeim baráttumálum sem við höfum ákveðið í sameiningu að lögð verði áhersla á.
Í stuttu máli viljum við réttlátara og aðgengilegra samfélag fyrir alla.
Í dag göngum við undir kjörorðunum Lúxus eða lífsnauðsyn – fátækt útilokar fólk frá samfélaginu?
Við vekjum athygli á því að fjöldi Íslendinga þarf að velja á milli hversdagslegrar og jafvel lífsnauðsynlegrar vöru á degi hverjum, vegna þess að framfærsla þeirra dugar ekki fyrir öllu því sem til þarf að lifa mannsæmandi lífi. Dæmi eru um að fólk þurfi að velja á milli þess að kaupa sér pensilín eða fara í sund með börnin.
Á Íslandi búa 50 manns með 80.000 krónur eða minna á mánuði til framfærslu.
Við höfum oft bent stjórnvöldum á að hægt sé að bæta kjör þeirra með einfaldri breytingu í reglugerðaákvæði þannig að þetta fólk fái framfærslu í takt við óskertan örokulífeyri sem er samt undir tvöhundruð þúsund krónum eftir skatt.
Það hefur ekki verið hlustað.
UNICEF gaf út skýrslu í fyrra sem sýndi að yfir 6.100 börn á Íslandi búa við fátækt og eru það m.a. börn örorkulífeyrisþega. Við höfum margoft bent stjórnvöldum á hversu mikið börnin gjalda fyrir fátækt foreldranna. Hversu mikilvægt það er að skólaganga (grunn- og framhaldsskóla) sé að öllu leyti gjaldfrjáls og að íþróttir og tómstundir séu gjaldfrjáls fyrir börn sem búa við fátækt.
Það hefur ekki verið hlustað.
Fátækt útilokar fólk frá samfélaginu – útilokar börn frá þátttöku, treystir þau í slæmri félagslegri stöðu sem getur gert það að verkum að þau eiga erfitt uppdráttar, jafnvel einnig á fullorðinsárum.
Ef fólki er haldið í fátækt er næsta víst að það tekur ekki þátt og á bágt með að gefa af sér. Samfélagið nýtur því ekki góðs af þeirra kröftum og þátttöku. Það er því samfélagslega óhagkvæmt að fólk sé fátækt.
Ég get ekki látið ótalið að nefna fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu 5 ára eða til ársins 2022 því þar kemur skýrt og klárt í ljós að ríkisstjórnin telur þjóðhagslega hagkvæmt, því ég geri ráð fyrir að allar ákvarðanir séu teknar með tilliti til þjóðhagslegrar hagkvæmni, að halda örorkulífeyrisþegum fátækum. Því hún vill einungis hækka óskertan örorkulífeyri um 3,1 -4,8% á næstu fimm árum.
Það þýðir, ef við erum bjartsýn, – og reiknum með hærri prósentutölunni 4,8% hækkun á hverju ári næstu fimm árin – að óskertur örorkulífeyrir verður í janúar árið 2022 – heilar 288 þúsund krónur rúmlega. En ég minni á að lágmarkslaun eiga að verða kr. 300.000 á næsta ári, sem er vissulega líka alltof lágt.
Afhverju vil ég tala um örorkulífeyri og lágmarkslaun á þessum degi, jú af því að lágmarkslaun eru þau laun sem starfsmaður fær þegar hann byrjar í starfi, hann hækkar svo væntanlega eftir 3 mánuði og svo 6 mánuði og svo hækkar hann í launum eftir aldri, menntun og svo koll af kolli.
Örorkulífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins er hins vegar í mörgum tilfellum eina framfærsla viðkomandi einstaklings og fyrir suma – eina framfærslan ævina út, þar sem menntun og fyrri störf eru ekki metin til tekna. Því þarf að tryggja að óskertur lífeyrir dugi til mannsæmandi framfærslu.
Eins og kerfið er uppbyggt í dag er nánast engin leið fyrir örorkulífeyrisþega að geta notið þeirra aukatekna sem hann mögulega getur aflað sér. Því þá skerðist lífeyririnn.
Fólk er hreinlega niður barið.
Uppi hefur verið umræða um starfsgetumat – ríkisstjórnin-verkalýðshreyfining og samtök atvinnulífsins virðast vera einhuga um að best sé að senda alla örorkulífeyrisþega í starfsgetumat. Þá muni þeir flykkjast út á vinnumarkaðinn eins og flugur flykkjast að mykjuskán og hægt verður að spara verulega í almannatryggingakerfinu.
Starfsgetumat – gott fólk – er ekki lausnin.
Ef það á að hvetja örorkulífeyrisþega, þá sem geta – til að taka þátt á vinnumarkaði – þá þarf að koma í veg fyrir að atvinnutekjur skerði örokulífeyri með jafn ríkulegum hætti og nú er raunin – þá þurfa ríki og sveitarfélög og Samtök atvinnulífsins að bjóða upp á störf við hæfi, veita þann sveigjanleika sem þarf ásamt viðeigandi aðlögun á vinnumarkaði.
Þá þarf síðast en ekki síst að lögfesta Samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Þegar þetta hefur verið framkvæmt þá hefur verið búinn til hvati til atvinnuþátttöku – því þarf EKKERT starfsgetumat til.
Ég upplifi gjarnan að stjórnmálamenn, forsvarsmenn lífeyrissjóða, verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins – það er ef þetta eru ekki bara allt sömu aðilarnar. Horfi gjarnan ofan í pott örorokulífeyrisþega, hristi pottinn og öskri – hvað eru þið að gera þarna, afhverju eruð þið svona margir þarna – drullið ykkur upp úr pottinum og farið að vinna!
Í stað þess að hugsa til þess hvað gerist áður en fólk dettur í pottinn, vissulega eru einhverjir með meðfædda fötlun eða sjúkdóma sem gera það að verkum að þeir geti tekið lítinn eða nánast engan þátt á vinnumarkaði – en aðrir fara oft í gegnum heillangt ferli eftir sjúkdóm, áfall eða slys. Flestir örorkulífeyrisþegar eru með geðraskanir eða stoðkerfissjúkdóma. Fleiri eru þeir konur en karlar. Flestir yfir fertugu og lang stærsti hópurinn yfir sextugu.
Hvernig er hægt að koma í veg fyrir fjölgun örorkulífeyrisþega, því það er svo sannarlega ekki akkur samfélagsins og alls ekki Öryrkjabandalagsins að fjölga örorkulífeyrisþegum.
Það þarf að horfa á aðstæður fólks áður en það verður örorkulífeyrisþegar, hvað er það í samfélagi okkar sem við getum bætt.
Lægstu laun á vinnumarkaði eru alltof lág! Fólk sem jafnvel hefur sótt sér fag- og sérmenntun er með alltof lág laun – því tekur fólk að sér aukavinnu og sinnir jafnvel tveimur til þremur störfum samtímis til þess eins að eiga ofan í sig og á.
Við erum fólk úr holdi og blóði og eftir langvarandi álag vegna vinnu og afkomukvíða þá er eitthvað sem gefur sig – og oftast er það geðið eða stoðkerfið nema hvorutveggja sé.
Biðlistar í heilbrigðiskerfinu eru of langir. Þegar einstaklingur hefur beðið mjög lengi eftir til dæmis eftir mjaðmaskiptiaðgerð þá má vera að aðgerðin skili ekki tilætluðum árangri því það er komin skekkja í stoðkerfið vegna biðarinnar.
Ef snemmtækri íhlutun er EKKI beitt þegar kemur að geðheilsu barna- og unglinga er hætta andfélagslegri hegðun og brottfalli úr skóla. Á Íslandi er eitt mesta brottfall nemenda úr framhaldsskólum ef miðað er við hin Norðurlöndin. Það er verulega alvarlegt mál. Þess ber einnig að geta að um 80% fanga eru með ADHD en sálfræðitími fyrir barn kostar í dag um 15.000 krónur. Ef snemmtækri íhlutun og sálfræði- og geðþjónustu hefði verið beitt fyrir þessa fanga á yngri árum, þá væri ekki víst að þeir sætu inni. Hætta á örorku er mikil.
Þegar um fjölgun örorkulífeyrisþega er að ræða þarf að horfa á manneskjuna í heild – samfélagið í heild – það eru mörg þrep sem þarf að steypa upp í og bæta áður en öskrað er á hóp örorkulífeyrisþega og þeim fleygt út á vinnumarkaðinn. Þetta fólk hefur gengið í gegnum miklar lífsraunir áður en það fékk örorkumat – hitt fjölda sérfræðinga og þverfaglegra teyma sem komust að þessari niðurstöðu. Þeim ber að tryggja mannsæmandi framfærslu.
Byggjum upp framtíðina – styrkjum grunnstoðir samfélagsins – menntakerfið – heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið – hugum að börnunum – tryggjum fólki mannsæmandi laun og umfram allt mannsæmandi lífeyri svo það geti sannarlega tekið þátt í samfélaginu. Samfélagi okkar allra!
Ég minni aftur á það að hér talaði ég af hálfu ÖBÍ en ekki neinnar stjórnmálahreyfingar.
Ellen Calmon formaður ÖBÍ