Skip to main content
Frétt

Málaferli hafin í króna á móti krónu.

By 7. maí 2020No Comments
Haustið 2019 höfðaði ÖBÍ mál gegn Tryggingastofnun ríkisins, í þeim tilgangi að fá hina svokölluðu krónu á móti krónu skerðingu fellda brott. Málið hverfist um þá afstöðu ÖBÍ að þessi mismunun lífeyrisþega uppfylli ekki skilyrði jafnræðisreglu samkvæmt 1. málsgrein 65. greinar stjórnarskrárinnar, og 14. grein mannréttindasáttmála Evrópu.

Gerð er krafa um að skerðingin á sérstakri uppbót hafi verið óheimil frá 1.janúar 2017, en frá og með þeim degi var krónu á móti krónu skerðingin afnumin hjá ellilífeyrisþegum en ekki örorkulífeyrisþegum. Það er þessi mismunun sem ÖBÍ telur ganga gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.

Ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar gerir engan greinarmun á réttindum þeirra sem hafa þörf fyrir aðstoð í skilningi ákvæðisins vegna elli annars vegar og örorku hins vegar. Af ákvæðinu verður því ekki dregin nein ályktun þess efnis að einstaklingar í annars sambærilegri stöðu teljist njóta mismunandi réttar til aðstoðar af þeirri ástæðu að þörf þeirra fyrir aðstoð eigi rætur að rekja til elli annars vegar og örorku hins vegar.

Ástæðan sem lá til grundvallar ákvörðun löggjafans að gera greinarmun á aðstoð til ellilífeyrisþega annars vegar og örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hins vegar byggði ekki á hlutlægu og málefnalegu mati löggjafans þess efnis að munur væri á þörf þessara tveggja hópa fyrir aðstoð eða að aðstæður þessara tveggja hópa væru ósambærilegar að einhverju leyti í þessu tilliti. Mismununin byggði einungis á áformum löggjafans um breytingar á ákvæðum laga um almannatryggingar um mat á örorku.

Ljóst er af meðferð lagafrumvarpsins sem innleiddi þennan mismun að löggjafinn ákvað að víkja frá tillögum nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar, þar sem gert var ráð fyrir að þær breytingar sem síðan voru gerðar með lögunum á bótarétti ellilífeyrisþega tækju einnig og með sama hætti til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Málið er nú rekið fyrir Héraðsdómi.