Skip to main content
Frétt

Mannréttindabrot framin á einstaklingum með geðrænan vanda

By 18. október 2019No Comments
Umboðsmaður Alþingis segir í nýrri heimsóknarskýrslu sinni að lagaheimildir eru ekki til staðar í íslenskri löggjöf til að taka ákvarðanir gagnvart frelsissviptum einstaklingum á geðheilbrigðisstofnunum sem geta falið í sér inngrip í réttindi sem eru varin í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Geðhjálp sendi í kjölfarið frá sér eftirfarandi ályktun.

Með heimsóknarskýrslu Umboðsmanns Alþingis, sem er hluti af OPCAT-eftirliti með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja, er það staðfest, sem Geðhjálp o.fl. aðilar hafa ítrekað bent á, að mannréttindabrot eru framin á hverjum degi á einstaklingum með geðrænan vanda. Í skýrslu Umboðsmanns segir: „Ljóst er að fullnægjandi lagaheimildir eru ekki til staðar í íslenskri löggjöf til að taka ákvarðanir gagnvart frelsissviptum einstaklingum á geðheilbrigðisstofnunum sem geta falið í sér inngrip í réttindi sem varin eru í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Þótt sjúklingur sé frelsissviptur á grundvelli lögræðislaga eða dóms veitir það starfsmönnum geðheilbrigðisstofnanna ekki sjálfkrafa heimild til þess að skerða slík réttindi sjúklinga.“

Landssamtökin Geðhjálp vilja árétta að vart líður sá dagur á Íslandi að fólk með geðrænan vanda sé ekki frelsissvipt, svipt ákvörðunarrétti, nauðungarvistað og lyfjum sprautað í það með valdi og í framhaldinu síðan þvingað til að taka lyf. Samtökin hafa um árabil bent á að þessi mannréttindabrot séu framin í skjóli gildandi lögræðislaga þar sem túlkanir hafi verið þeim lögræðissvipta mjög í óhag. Vonir hafi verið bundnar við að með innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þar sem hvers kyns þvingun eða nauðung á grundvelli fötlunar er óheimil, myndu þessi mannréttindabrot taka enda. Umboðsmaður Alþingis hefur nú úrskurðað að lagaheimildir séu ekki fyrir hendi fyrir þeim þvingunum sem beitt er í dag. 

Landssamtökin Geðhjálp krefjast þess að stjórnvöld bregðist við án tafar í ljósi þeirra ábendinga, sem koma fram í skýrslu Umboðsmanns Alþingis, og endurskoði löggjöfina í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er hægt að læra af öðrum þjóðum eins og Írum sem nýlega endurskoðuðu lögin með þessum hætti. Þar eru farnar leiðir sem samræmast betur sjálfsögðum mannréttindum fólks á  21. öldinni.

Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar, 18. október 2019.