Skip to main content
Frétt

Mikilvægi verkferla og viðbragðsáætlana í sumardvöl

Um leið og ÖBÍ réttindasamtök árétta mikilvægi þess að fötluðum börnum sé gert kleift að sækja almenna sumardvöl, lýsa þau ánægju með þá ætlan Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) að gera úttekt á allri sumardvöl í landinu. Það er brýnt að verkferlar og viðbragðsáætlanir séu til fyrirmyndar alls staðar þar sem unnið er með börnum.

ÖBÍ réttindasamtök harma það að alvarlegt atvik hafi komið upp í sumarbúðunum í Reykjadal og að viðbrögð hafi verið í ólagi þegar það varð. ÖBÍ fagnar því að þegar hefur verið gripið til aðgerða til koma í veg fyrir sambærileg atvik og að brugðist hefur verið við þeim athugasemdum sem GEV gerir í nýútkominni skýrslu sinni. Dvölin í Reykjadal hefur í 60 ára sögu sumarbúðanna verið fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra afar dýrmæt. Einstakt starf hefur verið unnið þar þessa áratugi og þúsundir barna notið. Lögð hefur verið áhersla á að gestir upplifi gleði og ævintýri og hver einstaklingur fái að njóta sín á eigin forsendum.