Skip to main content
Frétt

Minningarorð: Magnús Þorgrímsson

By 8. mars 2019No Comments

Magnús Þorgrímsson, sálfræðingur, fæddist í Reykjavík 21. mars 1952. Hann lést á Landspítalanum 25. febrúar síðast liðinn. Magnús verður jarðsunginn frá Langholtskirkju í dag, 8. mars, klukkan 15.

Kveðja frá Öryrkjabandalagi Íslands

„Með samstöðu finnum við að við eigum sem manneskjur meira sameiginlegt en það sem aðskilur okkur. Við getum deilt persónulegri lífsreynslu með öðrum. Við getum létt af hjarta okkar og notið gleði með öðrum. Allt þetta veitir okkur lífsfyllingu.“

Þessi orð mælti Magnús Þorgrímsson í grein í fréttabréfi ÖBÍ árið 1989. Þau lýsa honum vel. 

Magnús var einlægur hugsjónamaður og baráttumaður fyrir réttindum fatlaðs fólks og varði kröftum sínum í þágu málaflokksins til síðasta dags.

Magnús starfaði lengi á þessum vettvangi, raunar megnið af sínum starfsferli. Hann var meðal annars formaður Geðhjálpar og sat í stjórn Hjartaheilla. Hann átti sæti í stjórn Öryrkjabandalags Íslands og gegndi ýmsum fleiri trúnaðarstörfum fyrir bandalagið. Hann var sálfræðingur á Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra í Reykjavík. Síðar stýrði hann Svæðisskrifstofunni á Vesturlandi. Þá var hann síðustu ár réttindagæslumaður fatlaðs fólks í Reykjavík og á Seltjarnarnesi.

Hann kom reglulega á skrifstofu ÖBÍ í þeim tilgangi að aðstoða skjólstæðinga sína og lagði gjarnan mikið á sig í þágu þeirra. Þá kom hann einnig með góðar ábendingar um margt sem mátti bæta í samfélaginu. 

Magnús lagði sig þannig fram, bæði í orði og verki, til þess að bæta kjör og aðstöðu fólks og var ófeiminn við að horfa inn á við jafnt sem út á við. Hann var þeirrar skoðunar að þótt hópar fatlaðs fólks séu ólíkir um margt, þá er meira sem sameinar og að sú samstaða getur yfirunnið margar hindranir.

Við kveðjum Magnús Þorgrímsson með þökkum fyrir öflugt ævistarf sem við munum öll njóta um ókomna tíð. Aðstandendum færum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.