Skip to main content
Frétt

„Mjög flottur réttindasamningur fyrir fatlað fólk“

By 6. júlí 2022No Comments
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni, miðvikudagsmorguninn 6. júlí í kjölfar mikillar umfjöllunar um þrautagöngu foreldra fatlaðrar stúlku og baráttu þeirra við kerfið. Hann sagði þar að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks væri mjög flottur réttindasamningur og færði okkur sterkt vopn í hendur til að til að bæta kerfið.

Móðir fatlaðrar stúlku skrifaði grein í Morgunblaðið í síðustu viku sem vakti mikla athygli og mál hennar í kjölfarið fengið talsverða umfjöllun í fjölmiðlum. Þar lýsti hún þrautagöngu þeirra foreldra við það að stúlkan varð 18 ára, og þeirra upplifun að þurfa að hefja réttindabaráttu fyrir hana upp á nýtt.

Guðmundur Ingi sagðist í viðtalinu vilja bæta úr þessu, og vinna við það væri þegar hafin. Eitt af því fyrsta sem lagt var á borð hans sem ráðherra voru upplýsingar um þær hindranir sem fatlað fólk stæði frammi fyrir í hinum stafræna heimi. Varðandi réttindagæslu fatlaðs fólks sagði ráðherra að þegar væri búið að forgangsraða fjármunum til hennar, svo réttindagæslunni yrði kleift að vinna á biðlistum þeim sem myndast hafa, meðal annars vegna veikinda starfsfólks. Eitt af því sem breytt verður eru námskeið fyrir þá sem ætla að verða talsmenn fatlaðs einstaklings. Unnið er að því að þau verði aðgengileg á netinu og því aðgengileg öllum, alls staðar, hvenær sem er. Einnig er áætlað að í ágúst eða september, verði kominn til sögunnar, í samstarfi við island.is, nokkurs konar umboðsvefur, talsmannagrunnur, sem er tengdur við réttindagæsluna og mun gera kleift að tengja rafræna þjónustu fatlaðs fólks, sem ekki getur nýtt sér hana sjálft, beint við talsmenn þess.

En þörfin fyrir þau grundvallist á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem gengur út frá því að útgangspunkturinn sé vilji fatlaða einstaklingsins. Námskeiðin eiga að tryggja að verðandi talsmenn séu fullmeðvitaðir um réttindi þess sem þau ætla að verða talsmenn fyrir og að við stöndum við samninginn.

Ráðherra sagðist aðspurður um upplifun fólks í samskiptum við kerfið, að viðmótið sé eins og allir ætli sér að svindla. Hann segist hafa heyrt þessar sögur, bæði af afspurn en einnig í samtölum sjálfur. „Það þarf að vera viðvarandi verkefni þeirra sem eru í þjónustu við almenning að bæta úr þessu“

Guðmundur Ingi sagði fatlað fólk vera hóp sem hann legði mikla áherslu á að bæta réttindi fyrir og þjónustu við, þó mikið hafi breyst til betri vegar á undanförnum árum. Þar væri það sem að hans mati skipti höfuðmáli, lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hann væri að hluta til komin inn í okkar löggjöf. Verkefnið er á ábyrgð forsætisráðuneytisins, en félagsmálaráðuneytið hefði það hlutverk að leiða vinnuna við lögfestinguna og í nýrri landsáætlun verða sett fram markmið og aðgerðir um hvernig við innleiðum hvert og eitt ákvæði SRFF.

„Þessi samningur er mjög flottur, þetta er mjög flottur réttindasamningur fyrir fatlað fólk og ef við förum skipulega í það að setja okkur markmið og aðgerðir fyrir öll ákvæði samningsins, þá sé ég fyrir mér að við séum komin með mjög sterkt vopn í hendurnar til að gera kerfið betra og það er algjört grundvallaratriði í mínum huga að vinna að því, við erum að hefja þessa vinnu núna og ég er búinn að kynna formið á vinnunni fyrir hagsmunasamtakanna fatlaðs fólks, og þetta er vinna sem er mjög spennandi að mínu viti“