Skip to main content
Frétt

Nær 8 af hverjum 10 eiga erfitt með að ná endum saman

By 13. september 2021No Comments
Varða, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, hefur kynnt rannsókn sem stofnunin vann að beiðni ÖBÍ, um stöðu fatlaðs fólks. Í stuttu máli eru niðurstöðurnar á þann veg að nærri 8 af hverjum tíu eiga erfitt, eða mjög erfitt með að láta enda ná saman um hver mánaðamót.

Skýrslan sýnir mjög slæma stöðu öryrkja, og borið saman við samsvarandi skýrslu Vörðu um stöðu atvinnulausra á vinnumarkaði. 

Svarendur voru spurðir að því hversu auðvelt eða erfitt þeir ættu með að ná endum saman, hvort þeir hefðu fengið fjárhagsaðstoð, hvort þeir byggju við skort á efnislegum gæðum og hvort fjárskortur hefði komið í veg fyrir að hægt væri að veita barni/börnum ýmsar nauðsynjar. Að lokum voru svarendur beðnir að meta hversu ánægðir eða óánægðir þeir væru með fjárhagsstöðu sína um þessar mundir. Allar spurningarnar voru greindar eftir kyni og aldri.

Mikill meirihluti fatlaðs fólks á frekar erfitt (31%) eða erfitt (44%) með að ná endum saman. Marktækur kynjamunur mælist eingöngu meðal ungs fólks. Fleiri ungar konur eiga erfitt með að ná endum saman (38% á móti 13%)

Niðurstöður á mælingum á níu þáttum efnislegs skorts eftir kyni og aldri eru að finna í skýrslunni. Þær sýna að 19% fatlaðs fólks hafa verið í vanskilum á lánum eða leigu, 62% geta ekki mætt óvæntum útgjöldum, 52% hafa ekki efni á árlegu fríi, 23% ekki efni á staðgóðri máltíð annan hvern dag, 3% ekki efni á síma, 9% ekki efni á sjónvarpstæki, 10% ekki efni á þvottavél, 22% ekki efni á bíl og 5% ekki efni á nægilegri upphitun á húsnæði sínu.

Þeir svarendur sem eru með börn undir 18 ára aldri á heimili sínu voru spurðir um hvort fjárskortur hefði komið í veg fyrir að þeir gætu greitt fyrir nauðsynlega hluti handa börnunum. Niðurstöðurnar eru birtar í töflu 9. Þær sýna að 7% fatlaðs fólks með börn hafa ekki getað greitt leikskólagjöld, 11% ekki gjöld fyrir frístund, 8% ekki skólagjöld í framhaldsskóla, 11% ekki fyrir skólabækur eða annan námskostnað, 17% ekki fyrir mat í skólanum, 30% ekki fyrir kostnað vegna skipulegra tómstunda, 12% ekki fyrir kostnað vegna skólaferðalaga, 40% ekki fyrir nauðsynlegan fatnað, 34% fyrir eins næringarríkan mat og þau telja börnin þurfa og 6% ekki fyrir annan kostnað vegna barna. Hlutfallslega fleiri konur en karlar geta ekki greitt fyrir skólagjöld í framhaldsskóla (10% á móti 3%), skólabækur eða annan námskostnað (14% á móti 5%), mat í skólanum (21% á móti 10%) og/eða kostnað vegna skipulagðra tómstunda (34% á móti 22%) en hlutfallslega fleiri karlar en konur hafa ekki getað greitt gjöld fyrir frístundaheimili (17% á móti 8%).

Þá hafa nærri 80% svarenda þurft að neita sér um heilbrigðisþjónustu.

Skýrsluna á PDF má nálgast í heild sinni hér. Kynning Vörðu á PowerPoint má nálgast hér. Í Kastljósi 14. september 2021 var rætt um rannsóknina við þær Kristínu Hebu Gísladóttur, framkvæmdastjóra Vörðu sem vann rannsóknina og Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formann ÖBÍ.