Skip to main content
FréttSRFF

Norðmenn ætla að lögfesta samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks

ÖR-LÖGIN eru í ykkar höndum

Ríkisstjórn Noregs hefur samþykkt að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, fyrst Norðurlanda. Þetta þýðir að tryggt verður að Norðmenn geti byggt rétt sinn á samningnum fyrir dómstólum með beinum hætti.

„Ég óska Norðmönnum til hamingju með þessa ákvörðun og óska þess að hún verði öðrum ríkjum til fyrirmyndar. ÖBÍ hvetur ríkisstjórn Íslands til að lögfesta samninginn sem allra fyrst,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.

Í kápu utan um Fréttablaðið í dag kallar ÖBÍ eftir lögfestingu samningsins hér á landi. Þar segir: „Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigum við rétt til þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra. Íslensk stjórnvöld hafa fullgilt samninginn en til að hann öðlist alvöru merkingu fyrir líf og réttindi okkar, þeirra tugþúsunda sem hann snertir, þarf að lögfesta hann. Af því er bara ekkert að frétta.“

Samningurinn festur í norsk lög

Norska ríkisstjórnin segir á vefsíðu sinni að samningurinn verði nú festur í norsk lög og að unnið sé að lögfræðiáliti um hvernig það skuli gert á sem bestan hátt.

Anette Trettebergstuen, menningar- og jafnréttismálaráðherra Noregs, segist í tilkynningu hlakka til þess að leita samráðs við lögfestinguna og að tryggja þurfi réttindi fatlaðs fólks í Noregi.

„Við vitum að fjöldi fatlaðs fólks stendur frammi fyrir hindrunum á sviðum menntunar, atvinnulífs og menningar. Of margir sæta ofbeldi og áreitni. Þetta hefur mikil áhrif á einstaklinginn en auðvitað líka á allt samfélagið,“ er haft eftir Trettebergstuen.