Skip to main content
Frétt

Ný evrópsk aðgengislöggjöf gæti átt við á Íslandi

By 7. september 2017No Comments

Fjölmenni var fyrir utan Evrópuþingið í Brussel í vikunni þegar fulltrúar frá European Disability Forum – EDF, sem eru Evrópusamtök fatlaðs fólks, efndu til samstöðufundar um nýja aðgengislöggjöf sem er til umræðu þessa dagana á þinginu. Fulltrúar EDF kynntu þar frumvarpið og athugasemdir samtakanna við það. Evrópuþingið tekur það til umræðu fimmtudaginn 14. september næstkomandi.

Opið var þar til fyrr í þessari viku fyrir að Evrópuþingmenn gætu gert breytingar á frumvarpinu og höfðu EDF sett um sérstaka vefsíðu þaðan sem hægt var að senda áskoranir um breytingatillögur á Evrópuþingmenn.

Breytingartillaga frá EDF liggur fyrir Evrópuþinginu og verður tekin til atkvæðagreiðslu 14. september. Samtökin hafa lengi barist fyrir evrópskri aðgengislöggjöf og vilja tryggja að hún verði sterk og metnaðargjörn og gagnist þeim 80 milljónum fatlaðra einstaklinga sem búa í Evrópu.

Í júlí hafði ÖBÍ samband við Sameiginlegu EES nefndina (EEA Joint Committee) til að kanna hvernig lagasetning sem þessi hefði áhrif hér á landi í ljósi aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Í tölvupósti til ÖBÍ segir Jacqueline Breidlid, fulltrúi hjá EFTA (Fríverslunarsamtökum Evrópu, sem Ísland tilheyrir) að ákvörðun um hvort aðgengislöggjöfin veðri hluti af EES-samningnum, og taki þá til Íslands, verði tekin á vettvangi Sameiginlegu EES nefndarinnar og þá eftir að Evrópusambandið hefur samþykkt lögin.

EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu (Ísland, Liechtenstein og Noregur) fari nú yfir aðgengislögin í frumvarpinu til að kanna hvort þau eigi við EES og undirbúa að taka þau inn í EES-samninginn ef báðir aðilar, EFTA ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu og ríki Evrópusambandsins, telji svo vera.

EFTA ríkin í EES hafa gefið út álit frumvarpið um evrópsku aðgengislöggjöfina sem má finna hér.