Skip to main content
FréttHeilbrigðismál

Ný könnun: Vaxandi hópur frestar læknisheimsóknum

Stór hluti fólks sem er metið með a.m.k. 75% örorku á Íslandi frestar því að fara til læknis og sjúkraþjálfara og sækir ekki lyf sem því er ávísað. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í könnuninni Lífskjör og heilbrigðisþjónusta á Íslandi.

Könnunin var kynnt í húsnæði Háskóla Íslands í dag. Félagsvísindastofnun vann könnunina fyrir ÖBÍ réttindasamtök og Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði.

Veruleg tengsl eru á milli útgjalda einstaklinga og heimila til heilbrigðismála og frestunar læknisþjónustu. Sem sagt, margt fólk hættir við að fara til læknis eða frestar því af því það á einfaldlega ekki efni á því. Hið sama hildir um að sækja ávísuð lyf í apóteki.

Staðan er sú að umtalsverður hópur býr við verulega kostnaðarbyrði vegna útgjalda til heilbrigðismála. Þarna er staða yngra fólks, einstæðinga, lágtekjufólks og fatlaðs fólks auðvitað verst.

Á síðustu sex mánuðum sögðust 42,8 prósent öryrkja hafa þurft að fresta læknisþjónustu samanborið við 22,1 prósent annarra fullorðinna. Þessi staða hefur versnað frá því sambærileg rannsókn var gerð árið 2015. Þá höfðu 34,7 prósent öryrkja frestað læknisheimsókn en 21 prósent annarra.

Það er nefnilega dýrt að vera fatlaður og því geta fylgt stóraukin útgjöld til alls konar heilbrigðisþjónustu. Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að öryrkjar meti heilsu sína að jafnaði verri en aðrir og þurfa oftar að leita á heilsugæslu, til sérgreinalækna, sjúkraþjálfara, sálfræðinga, félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar voru áætluð bein heildarútgjöld heimilis vegna heilbrigðismála 244.207 krónur fyrir meðalheimili á landsvísi, 323.437 krónur á heimili fólks sem metið er með a.m.k. 75% örorku.

Margir þættir spila inn í þennan mikla kostnað. Þar ber til dæmis að nefna langvarandi samningsleysi hins opinbera við bæði sérgreinalækna og sjúkraþjálfara. Því fylgja komugjöld sem í heildina má áætla að hlaupi á milljörðum króna.