Skip to main content
FréttTR

Nýr forstjóri Tryggingastofnunar

By 12. maí 2022ágúst 31st, 2022No Comments
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur skipað Huld Magnúsdóttur í embætti forstjóra Tryggingastofnunar frá og með 1. júní næstkomandi.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, skipar félags- og vinnumarkaðsráðherra forstjóra Tryggingastofnunar til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar. Stjórn Tryggingastofnunar lagði til við ráðherra að Huld Magnúsdóttir yrði skipuð forstjóri Tryggingastofnunar en sérstök hæfnisnefnd sem ráðherra skipaði mat Huld hæfasta umsækjandann um embættið.

Í frétt á vef ráðuneytisins segir að Huld hafi umfangsmikla reynslu sem stjórnandi, bæði hjá hinu opinbera og á almennum markaði. Hún starfaði í 15 ár hjá Össuri hf. og Ossur Americas frá 1993 til 2008. Hún var forstjóri þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu í 8 ár, eða frá stofnun miðstöðvarinnar árið 2009 til ársins 2017. Hún var jafnframt settur forstjóri Tryggingastofnunar í níu mánuði á árunum 2015 og 2016 í námsleyfi þáverandi forstjóra. Frá árinu 2017 hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Huld stundaði nám í ensku við Háskóla Íslands 1988–1989, lauk BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá University of Sussex árið 1992, meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst árið 2011 og lauk diplómanámi á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands árið 2015.