Skip to main content
Frétt

Nýr tónn – nýir tímar

By 9. september 2022No Comments

Með reglulegu millibili hafa áherslur og aðferðir ÖBÍ verið endurskoðaðar með tilliti til tíðaranda, stöðu réttinda og þeirra verkefna sem fyrir liggja. Á stefnuþingi ÖBÍ fyrir tæpu einu og hálfu ári kom fram ákall um að sleginn yrði nýr tónn hjá bandalaginu og í stefnu þess er nú ,,sterk jákvæð ímynd” ein af áherlsunum. Í byrjun þessa árs voru gerðar kannanir innan og utan ÖBÍ og farið í greiningarvinnu sem dýpkuð var enn frekar á stefnuþingi bandalagsins nú í vor. Í framhaldinu tók við hönnunarferli og endurmörkun til næstu ára.

ÖBÍ fagnar nú nýju merki, útliti og tóni. Samhliða þessum breytingum hefur nýr vefur samtakanna verið opnaður þar sem höfuðáherslan er á aðgengi, notendaupplifun og öfluga miðlun.

Hér má nálgast merkið í mismundi útgáfum.

 

Nánar um nýja ásýnd

Aðalliturinn í nýrri ásýnd er fjólublár, sem er orðinn einkennislitur réttindabaráttu fatlaðs fólks víða um heim. Hann er alþjóðlegt tákn fyrir hugrekki og nýja nálgun í baráttunni fyrir jöfnum réttindum og samfélagslegri þátttöku á forsendum hvers og eins.

Merkið er kröftugt og mjúkt í senn. Skáskurður í einum upphafsstafnum minnir á að fatlað fólk er að jafnaði 15% mannfjöldans og að þótt vanti upp á að stafurinn b sé heill þá þjónar hann sínu hlutverki jafn vel og aðrir. Að auki fær skammstöfunin undirtitilinn “réttindasamtök” og sem undirstrikar það hlutverk samtakanna að sækja rétt fatlaðs fólks.

 

Nánar um nýjan tón

Um leið er með merkinu sleginn upphafstónn nýrrar hugsunar í markaðsefni ÖBÍ sem gengur út á áherslu á hið jákvæða. Þannig fá neikvæð forskeyti hvíld meðan jákvæða hlutanum er haldið fram. Lögð er áhersla á orkuna, jöfnuðinn, réttindin, meðan ör-, ó- og for- hverfa í bakgrunni. Málið er að útrýma þessum takmarkandi forskeytum, ef ekki eiginlega þá í það minnsta samfélagslega. Krafan er (ó)réttlæti og (ó)jöfnuður og sterkasta vopnið í baráttunni er (ó)sýnileiki.

 

Endurmörkun: ENNEMM
Vefur: Opin kerfi