Skip to main content
Frétt

ÖBÍ á Rokkhátíð samtalsins

By 11. september 2019No Comments

 Að þessu sinni áttu formaður og varaformaður ÖBÍ sófaspjall við forseta og varaforseta ASÍ og Öryrkjabandalagið stóð fyrir málstofu um hatursorðræðu í garð jaðarsettra hópa. Á föstudeginum áttu Drífa Snædal forseti ASÍ og Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ sófaspjall þar sem rætt var hvort atvinnumarkaðurinn væri fyrir alla. Seinna um daginn var málstofa um Hatursorðræðu í garð jaðarsettra hópa, fyrirlesari var Birgir Guðmundsson. Á laugardeginum var seinna sófaspjallið og voru þátttakendur þar, auk Drífu og Þuríðar, Kristján Snæbjarnarson varaforseti ASÍ og Halldór Sævar Guðbergsson varaformaður ÖBÍ.Halldór Sævar Guðbergsson og Drífa Snædal

Öllum viðburðunum var streymt og má sjá þá á FB síðu Öryrkjabandalagsins. Lýsa er góður vettvangur til samtala og tókust bæði sófaspjöllin vel, þar sköpuðust heilmiklar umræður og hlustendur ófeimnir að spyrja og tjá sig. Það sem er líka skemmtilegt við Lýsu að aldrei er að vita hverjir reka inn nefið, og til að mynda átti Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra, leið fram hjá sófanum á laugardaginn og gripu þátttakendur tækifærið og leiddu hann inn í umræðuna.

Þó svona umræður leiði kannski ekki til einnar niðurstöðu var þó ljóst af sófaspjallinu að Verkalýðs- og stéttarfélög þurfa að skoða betur með hvaða hætti þau geta varið réttindi fólks sem hefur fallið af vinnumarkaði. „Samtalið heldur áfram og er ég viss um að það mun verða til þess að horft verður með öðrum hætti til þeirra sem falla af vinnumarkaði, en hatursorðræða í garð öryrkja er t.d. því miður byggð á þeim algenga misskilningi að fólk nenni ekki að vinna. Öryrkjum (fatlað og langveikt fólk) þarf að mæta þar sem þeir eru staddir og til þess verður vinnumarkaðurinn, bæði hinn opinberi og almenni, að skapa rými fyrir hlutastörf auk þess sem stjórnvöld verða að draga verulega úr skerðingum og afnema með öllu krónu á móti krónu skerðinguna. Það er ekki vænlegt til árangurs að refsa fólki fyrir að reyna fyrir sér á vinnumarkaði.

ÖBÍ hefur undanfarin ár tekið þátt á Lýsu, bæði þegar hún var haldin í Norræna húsinu undir heitinu Fundur fólksins og svo síðustu ár á Akureyri undir merkjum LÝSU Rokkhátíð samtalsins.  Fyrirmyndir Lýsu eru m.a. Almedalsveckan á Gotlandi í Svíþjóð, Folkemødet á Bornholm í Danmörku og Arendalsuka í Noregi, og er tilgangur þeirra að skapa samræðuvettvang á jafnréttisgrundvelli.

Birgir Guðmundsson heldur fyrirlestur um hatursorðræðu