Skip to main content
AðgengiFréttStafrænt aðgengi

ÖBÍ á þingi Sameinuðu þjóðanna í New York

Tveir fulltrúar ÖBÍ réttindasamtaka sóttu þing Sameinuðu þjóðanna um samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks, COSP-18, í New York í Bandaríkjunum í vikunni. Þeir Eiður Welding, formaður UngÖBÍ og stjórnarmaður í ÖBÍ, og Kjartan Þór Ingason verkefnastjóri ferðuðust út í fylgd með öðrum íslenskum fulltrúum, þar á meðal Ingu Sæland félagsmálaráðherra.

Gervigreind og fatlað fólk

Eiður var á meðal ræðumanna á hliðarviðburði Norræna ráðherraráðsins, Finnlands og UN Women um aðgengilega og inngildandi gervigreind. Á viðburðinum voru rædd tækifæri fyrir fatlað fólk til að nýta gervigreind og hugmyndir um það hvernig notkun gervigreindarforrita verði gerð bæði aðgengileg og inngildandi.

Í ræðu sinni fjallaði Eiður meðal annars um eigin reynslu og minnti á að ef ekkert er að gert muni gervigreindin óhjákvæmilega gera misgóð samfélagsleg viðhorf að sínum eigin. Því þurfi að vakta vel mögulega fordóma sem leynast í gervigreindarforritum og þjálfa þurfi þau á efni sem gera ráð fyrir mannlegum fjölbreytileika.

„Ef gervigreindin á að vera inngildandi og valdeflandi fyrir okkur öll, ekki bara sum, þarf að forrita hana með aðgengileika og algilda hönnun í huga. Það krefst samstarfs, fræðslu og eftirlits og að sjálfsögðu aðkomu fatlaðs fólks sjálfs,“ sagði Eiður.

Þakklátur félagsmálaráðherra

Inga Sæland félagsmálaráðherra hélt ræðu á þinginu sjálfu sem óhætt er að segja að hafi vakið mikla athygli. Rakti hún þar eigin sögu.

„Dömur mínar og herrar. Ég heiti Inga Sæland. Ég er lögblind. Ég hef minna en 10 prósent sjón, hef aldrei ekið bíl eða séð haustlitina. En ég er félags- og húsnæðismálaráðherra – fyrsta manneskjan með fötlun sem gegnir ráðherraembætti á Íslandi.“

Lesa má ræðu Ingu í heild á hlekknum hér að neðan:

https://www.stjornarradid.is/gogn/raeda/2025/06/10/Avarp-Ingu-Saeland-felags-og-husnaedismalaradherra-a-thingi-adildarrikja-um-samning-STh-um-rettindi-fatlads-folks-COSP-18-/