Skip to main content
Frétt

ÖBÍ gerir athugasemdir við drög að reglugerð um greiðsluþátttöku

By 21. desember 2016No Comments

Öryrkjabandalag Íslands gerir nokkrar athugasemdir við drög velferðarráðuneytisins að reglugerð um greiðsluþátttöku sjúklinga í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Í reglugerðardrögunum er kveðið á um fjárhæðir og greiðslur þegar nýtt greiðsluþátttökukerfi tekur gildi 1. febrúar 2017.

Í umsögn um reglugerðardrögin, sem ÖBÍ hefur sent velferðarráðuneytinu, kemur fram að bandalagið telur jákvætt skref verið stigið þegar nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu taki gildi. Líta eigi á það sem fyrsta skref í átt að kostnaðarfrjálsri heilbrigðisþjónustu. Það sé þó ekki gallalaust og hætta er á að kostnaður sjúkratryggðra einstaklinga muni stóraukast, sérstaklega ef heilsugæslan verður ekki búin undir breytingarnar.

Þó reglugerðin hafi tekið breytingum til batnaðar þannig að hámarkskostnaður hafi verið lækkaður telur ÖBÍ að lækkunin sé ekki jafn mikil og fyrirheit hafi verið gefin um. Þá kemur fjármögnun breytinga ekki úr ríkissjóði heldur með tilfærslum innan kerfisins og aukinni greiðslubyrði meirihluta sjúkratryggðra.

Það verður að fjármagna breytingar á kerfinu úr ríkissjóði, í stað þess að auka álögur á sjúkratryggða einstaklinga.

ÖBÍ gerir nokkrar tillögur að breytingum:

  • Heilbrigðisþjónusta sem lög um greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu fjalla um verði gjaldfrjáls fyrir örorkulífeyrisþega, aldraða og börn frá 1. febrúar 2017 og fyrir almenna sjúkratryggða frá 1. janúar 2018.
  • Boðaðar breytingar á greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu verði greiddar úr ríkissjóði.
  • Gildistöku verði ekki frestað frekar því það hefur þegar verið gert einu sinni áður. Um leið leggjum við áherslu á að sá kerfisvandi sem gæti orðið, þ.e. aukinn kostnaður og bið eftir þjónustu, bitni ekki á notendum.

Málefnahópur ÖBÍ um heilbrigðismál óskaði eftir því að fulltrúar velferðarráðuneytisins myndu funda með fulltrúum aðildarfélaga ÖBÍ um gerð reglugerðarinnar enda stendur í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF):

„Aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð við og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Þeirri málaleitan var hafnað. Gerð er sú krafa að stjórnvöld standi við ákvæði samningsins sem var fullgiltur nýverið og því er beint til heilbrigðisráðherra að tryggja að fulltrúar frá ÖBÍ komi með virkum hætti að þeirri endurskoðun á reglugerðinni sem framundan er.