Skip to main content
Frétt

ÖBÍ hvetur HÍ að endurskoða ákvörðun sína varðandi fyrirkomulag lokaprófa

By 13. nóvember 2020No Comments

Öryrkjabandalag Íslands tekur heilshugar undir yfirlýsingu Stúdentaráðs Háskóla Íslands varðandi fyrirkomulag lokaprófa. Um fordæmalausa tíma er að ræða vegna COVID-19 heimsfaraldursins og þurfti Háskóli Íslands eðlilega að bregðast við þeim sóttvarnarreglum sem gilda á landinu. Af þeim sökum hefur kennsla að mestu farið fram rafrænt meðal annars undir þeim formerkjum að tryggja öryggi nemenda og starfsfólks skólans. Það skýtur því skökku við að stefna nemendum í staðpróf í stað þess að leita annarra leiða eins og t.d. námsmat út frá verkefnum eða rafræn próf.

Nemendur HÍ eru fjölbreyttur þverskurður af samfélaginu og þar á meðal er fatlað og/eða langveikt fólk sem margt hvert er í auknum áhættuhópi varðandi smit og langvinnar afleiðingar þess. Einnig eru margir nemendur nánir aðstandendur fólks í áhættuhópi. Hætta er á að nemendur treysti sér ekki að mæta í fjölmenn próf þar sem það felur í sér óþarflega mikla áhættu varðandi smit og gæti farið svo að nemendur sjái sér ekki annað fært en að velja heilsu og velferð fram yfir einingar. 

ÖBÍ minnir á að Ísland hefur undirgengist Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem kemur fram að „aðildarríkin skuli tryggja að fatlað fólk hafi aðgang að almennu námi á háskólastigi, starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og ævinámi án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu í þessu skyni tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar“.

ÖBÍ hvetur Háskóla Íslands að endurskoða ákvörðun sína og tryggja hag og öryggi nemenda og starfsfólks með öðrum lausnum.

Ekkert um okkur án okkar!

Málefnahópur ÖBÍ um atvinnu-og menntamál


Yfirlýsingin var send í gær, 12. nóvember 2020, til Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands.