Skip to main content
Frétt

ÖBÍ lýsir yfir vonbrigðum með lög um NPA

By 23. desember 2016No Comments

Í gær samþykkti Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks og lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Það er skemmst frá því að segja að samþykkt frumvarpsins eru okkur mikil vonbrigði. Ferill málsins vekur einnig sérstaka athygli.

Efni frumvarpsins er einfalt, fellt er niður ákvæði þar sem ráðuneyti velferðarmála er skuldbundið til þess að leggja fram frumvarp þar sem lagt verður til að notendastýrð persónuleg aðstoð skuli lögfest sem eitt af meginformum þjónustu við fatlað fólk. Í stað þess að framlengja það ákvæði um eitt ár er farin sú leið að fella þá skyldu algerlega niður. Slíkt frumvarp átti ráðherra velferðarmála að vera búin að skila af sér árið 2014, samkvæmt þágildandi bráðabirgðaákvæði. Í stað slíkrar lögbundinnar skyldu kemur fram að heimilt sé að framlengja samninga sem gerðir hafa verið árið 2016 til ársloka 2017.

NPA er þjónustuform sem tryggir fötluðu fólki sjálfstæði í eigin lífi. Aðstoð sem þeim er veitt er þá á þeirra eigin forsendum, fatlað fólk ræður því þá sjálft hvaða þjónusta er veitt,  hvernig þjónustunni er háttað, hver veitir hana og hvenær hún er veitt.

Mannréttindabarátta fatlaðs fólks hefur í gegnum árin verið barátta við ofurvald kerfa. Barátta fyrir sjálfstæðu lífi. Þess vegna er ekki tilviljun að í nýfullgiltum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlað fólks er réttur þess til sjálfstæðs lífs tryggður, sbr. 19. gr. hans. Fræðimenn líta á greinina sem eina af grundvallargreinum samningsins. Viðurkennt er af fræðimönnum, fötluðu fólki sjálfu og þjónustuveitendum að NPA er einna best, ef ekki best til þess fallin að tryggja fötluðu fólki sjálfstætt líf.

Hér á landi hefur fatlað fólk og heildarsamtök þess barist fyrir lögfestingu réttar fatlaðs fólks til NPA í áraraðir. Á meðan réttur til NPA er ekki tryggður er fötluðu fólki haldið eins og föngum heima hjá sér eða á stofnunum. Nauðsyn þess að lögfesta þjónustuformið er viðurkennd af öllum viðeigandi aðilum. Einnig hafa skýrslur verið gefnar út, lagalegar og tæknilegar lausnir liggja fyrir og jafnframt kostnaðarútreikningar. Það eina sem stendur í vegi fyrir málinu er að lögfestingin er talin kostnaðarsöm fyrir opinbera aðila og að heildarendurskoðun á lögum um málefni fatlaðs fólks hafi ekki verið kláruð. Viðurkennt er af opinberum aðilum að kostnaður myndi að skila sér í betri lífsgæðum fólks. Heildarendurskoðun á lögum getur aldrei, samkvæmt eðli sínu, orðið til þess að takmarka rétt Alþingis til þess að gera réttarbætur fötluðu fólki í hag. Slíkur rökstuðningur er þar með alvarleg hugsunarvilla sem mun vonandi aldrei sjást aftur í málflutningi á Alþingi.

Af öllu þessu ætti að vera ljóst að ekkert er því til fyrirstöðu að lögfesta rétt fatlaðs fólks til NPA, nema pólitískur vilji.

Í gær stóð Alþingi stóð frammi fyrir því annars vegar að standa með fólkinu og lögfesta rétt fólks til NPA, hins vegar að framlengja óbreytt ástand, svo ríkisvaldið þyrfti ekki að greiða þann kostnað sem upp á vantar til þess að klára málið. Sú upphæð eru smáaurar miðað við það sem fæst í staðinn.

Því miður var sú ákvörðun tekin af Alþingismönnum að standa með kerfinu en ekki fólkinu. Það veldur þar með ótrúlegum vonbrigðum að nýtt Alþingi hafi án umræðu samþykkt frumvarpið samhljóða og án þess að hafa samráð við fatlað fólk. Ákvörðunarferlið er ennfremur augljóslega í ósamræmi við 3. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Hér með er skorað á Alþingismenn að fyrsta verk þess eftir áramót verði að endurskoða þessa ákvörðun og tryggja sjálfstætt líf fatlaðs fólks.

 „A right delayed is a right denied“. Við sífelldar framlengingar og fresti verður ekki lengur unað.