Skip to main content
FréttSRFF

ÖBÍ réttindasamtök færðu þingmönnum gjöf

By 29. nóvember 2022No Comments
Þingmenn, formaður ÖBÍ, starfsmenn og formenn málefnahópa með húfurnar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, og formenn og starfsmenn málefnahópa bandalagsins færðu Alþingismönnum gjöf í þinghúsinu í dag í tilefni af alþjóðadegi fatlaðs fólks þann 3. desember. Þingmenn fengu húfur áletraðar „RÉTTLÆTI“ og í ávarpi hvatti Þuríður Harpa til þess að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur hið fyrsta.

Hér má lesa ávarpið í heild:

„Kæru þingmenn. Við erum hér samankomin, formenn og starfsmenn málefnahópa ÖBÍ réttindasamtaka til að afhenda ykkur táknræna og hlýja gjöf í tilefni af alþjóðadegi fatlaðs fólks sem er 3ja desember.

ÖBÍ hefur undanfarið vakið athygli á því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur enn ekki verið lögfestur. Fyrir okkur fatlað fólk á Íslandi er lögfesting hans gríðarlega mikilvæg vegna þess að með innleiðingu hans í lög eru mannréttindi okkar tryggð. Okkur eru tryggð sjálfsögð réttindi, réttindi sem aðrir þegnar samfélagsins þurfa ekkert að velta því fyrir sér, enda svo sjálfsögð réttindi.

Með lögfestingunni verður samfélagið okkar allra, þar sem gert er ráð fyrir okkur með ykkur, við munum öðlast líf sem er til jafns við annarra ef svo má að orði komast. Líf sem inniber rétt til að eiga og stofna fjölskyldu, rétt til að búa sjálfstæðri búsetu og velja hvar og með hverjum við búum, rétt til að njóta náms og atvinnuþátttöku og rétt til að taka virkan þátt í samfélaginu. Þar með talið að vera sjálfráð, komast í strætó, inn á Heilsuveru og í heimabankann. Sjálfsögð réttindi! Það er það sem við erum að biðja um ekkert meira og ekkert minna.

Þið sjáið því kæru þingmenn að framtíð fatlaðs fólks er í húfu. Ykkur treystum við til að koma sameiginlegu réttlætismáli í mark og lögfesta samninginn fyrir jól. Þannig verða gleðileg jól fyrir okkur öll – jólagjöfin okkar allra.“