Skip to main content
DómsmálFrétt

ÖBÍ réttindasamtök sækja um áfrýjunarleyfi

By 13. desember 2022No Comments

ÖBÍ réttindasamtök hafa ákveðið að sækja um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í máli sem varðar svonefnda krónu fyrir krónu skerðingu. Landsréttur kvað upp dóm 2. desember síðastliðinn í málinu og sýknaði Tryggingastofnun ríkisins af kröfum ÖBÍ réttindasamtaka. 

Málið á rætur að rekja til þess að Alþingi ákvað árið 2016 að sameina alla bótaflokka ellilífeyrisþega í einn ellilífeyri frá og með 1. janúar 2017 og afnema um leið krónu fyrir krónu skerðingu sérstakrar uppbótar á ellilífeyri. Þessi breyting var ekki látin ná til örorkulífeyrisþega sem þurftu því áfram að sæta krónu fyrir krónu skerðingu sérstakrar uppbótar árin 2017 og 2018 þar til skerðingin var lækkuð í 65% hinn 1. janúar 2019.

ÖBÍ höfðaði mál 4. október 2019 og krafðist leiðréttingar á þeirri mismunun sem leiddi á árunum 2017 og 2018 af afnámi krónu fyrir krónu skerðingar fyrir ellilífeyrisþega en ekki örorkulífeyrisþega. Af hálfu ÖBÍ var bent á að fyrir breytingarnar 1. janúar 2017 hefðu elli- og örorkulífeyrisþegar átt sama rétt til sérstakrar uppbótar á lífeyri og sætt sömu skerðingu uppbótarinnar (krónu fyrir krónu) vegna annarra tekna. Einstaklingar með sömu tekjur hefðu því fengið sömu uppbót og sömu skerðingu óháð því hvort um elli- eða örorkulífeyrisþega var að ræða. Eftir breytingarnar hefði staða örorkulífeyrisþega hins vegar orðið mun lakari en staða ellilífeyrisþega með sömu tekjur þar sem bætur til örorkulífeyrisþega hefðu áfram skerst krónu fyrir krónu en bætur til ellilífeyrisþega um 45% umfram 25.000 frítekjumark. Með breytingunni 1. janúar 2017 hefði lífeyrisþegum sem áður voru í sömu stöðu því verið mismunað.

Málsóknin byggir á því að ekki standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að mismuna lífeyrisþegum með þessum hætti nema hlutlægar og málefnalegar ástæður búi að baki. Ekki er deilt um það í málinu að ástæða þess að örorkulífeyrisþegar voru skildir út undan við afnám krónu fyrir krónu skerðingar á ellilífeyri 1. janúar 2017 var eingöngu sú að ekki náðist samstaða um að breyta örorkumati í starfsgetumat. ÖBÍ hefur bent á það að þessi ástæða tengist á engan hátt þörf örorkulífeyrisþega fyrir aðstoð vegna framfærslu og geti með engu móti réttlætt að bætur til þeirra séu skertar meira en samsvarandi bætur til ellilífeyrisþega í nákvæmlega sömu stöðu sem ekki var raunin áður.

Í dómi Landsréttar sem nú hefur verið kveðinn upp er mismununin talin standast stjórnarskrá vegna þess að „almennt verði ekki fullyrt að staða örorku-og endurhæfingarlífeyrisþega hafi samkvæmt lögum verið í öllu tilliti hin sama eða sambærileg stöðu ellilífeyrisþega fyrir gildistöku laga nr. 116/2016“. ÖBÍ bendir á að málsóknin lýtur ekki almennt að stöðu örorku- og ellilífeyrisþega í öllu tilliti heldur að mismunandi skerðingu bóta örorku- og ellilífeyrisþega í sambærilegum aðstæðum með sömu tekjur sem fyrir 1. janúar 2017 fengu sömu bætur og sættu sömu skerðingum vegna tekna sinna. Réttarstaða þessa hóps var að öllu leyti sú sama fyrir 1. janúar 2017 í því tilliti sem málsóknin lýtur að, þ.e. með tilliti til sérstakrar uppbótar á lífeyri og þeirrar krónu fyrir krónu skerðingar sem hún sætti í tilviki bæði örorku- og ellilífeyrisþega fyrir það tímamark en einungis í tilviki örorkulífeyrisþega eftir það.

ÖBÍ mun sækja um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar. Um er að ræða mál sem snertir hagsmuni þúsunda öryrkja sem sættu 100% skerðingu sérstakrar uppbótar á lífeyri árin 2017 og 2018 langt umfram þá skerðingu sem þeir hefðu orðið fyrir ef afnám krónu fyrir krónu skerðingar 1. janúar 2017 hefði náð til þeirra einnig líkt og nefnd um endurskoðun laga um almannatrygginga lagði til. Auk þess sem málið varðar gríðarlega hagsmuni allra öryrkja varðar það einnig þá grundvallarkröfu og -rétt öryrkja til að njóta jafnræðis á við aðra hópa í annars sambærilegum aðstæðum og verða ekki fyrir mismunun vegna fötlunar sinnar.