Skip to main content
AlmannatryggingarFréttKjaramál

Of háir skattar og skerðingar festa öryrkja í fjötrum fátæktar

By 25. maí 2022ágúst 31st, 2022No Comments
Í nýjasta hefti Kjarafrétta Eflingar, fer Stefán Ólafsson yfir samspil almannatryggingakerfisins og skerðinga. Niðurstaða hans er að og lágur lífeyrir, of miklar skerðingar og of háir skattar á lágar tekjur öryrkja, hafa fest allt of marga í fjötrum fátæktar.

Frá því örorkulífeyrir var hækkaður um 20% í kjölfar fjármálahrunsins 2008, og hann fór þá í 115% af lágmarks launum fyrir einhleypa en rétt um 98% af lægstu launum í tilviki hjóna eða sambúðarfólks, hefur sigið á ógæfuhliðina. Árið 2015 var hámarks lífeyrir einhleypra kominn niður í 95% af lægstu launum og 81% í tilviki hjóna eða sambúðarfólks. Aftur kom hækkun árið 2017 og fór þá hlutfall einhleypra upp í 100% en sú hækkun náði ekki til hjóna eða sambúðarfólks. Tveimur árum seinna skildi á ný á milli og eftir hækkun um síðustu áramót var hlutfallið fyrir sambúðarfólk eða hjón komið niður í 76% meðan hlutfall einhleypra er í um 95%.

Ofan á lágan grunn lífeyris hefjast skerðingar mjög snemma og hratt og er mjög óhagstæð þeim sem þurfa að lifa á honum.

Í úttekt Stefáns kemst hann að þeirri niðurstöðu að almannatryggingakerfið og tekjuskattskerfið streitist gegn því að öryrkjar geti bætt afkomu sína, hvort heldur er með atvinnu- eða lífeyristekjum.

Í tilviki þess sem fær eitt hundrað þúsund krónur frá lífeyrissjóði sínum, hækka ráðstöfunar tekjur hans aðeins um tuttugu og eitt þúsund krónur. Ávinningur ríkisins vegna skatta og skerðinga er hins vegar talsverður, eða ríflega sjötíu og átta þúsund krónur af þessum hundrað þúsund krónum.

Atvinnutekjur skila viðkomandi örlítið meira, sökum þess að frítekjumark er þar hærra en gagnvart tekjum frá lífeyrissjóði.

 

Það er niðurstaða Stefáns að kerfið geri öryrkjum einstaklega erfitt fyrir við að bæta hag sinn með atvinnuþátttöku samhliða lífeyri. Sparnaður í lífeyrissjóðum nýtist allt of illa til að bæta afkomuna. Í úttektinni er að finna reikningsdæmi sem sýnir fram á að þrátt fyrir tvö hundruð þúsund króna greiðslu frá lífeyrissjóði, dugar það varla til að ná endum saman fyrir einhleypan öryrkja sem býr einn.

Afkoma öryrkja í sambúð og með 2 börn er verri, því að nú hverfur heimilisuppbót.

Í niðurstöðu sinni segir Stefán að velferðarkerfið ætti að styðja mun betur við afkomu þeirra sem þurfa á því að halda og hvetja jafnframt til sjálfsbjargar með atvinnuþátttöku, frekar en að leggja steina í götu hennar. Það sé bæði óréttlátt og óskynsamlegt.

 

Hlekkur á úttektina í heild sinni er hér.