Skip to main content
Frétt

Ólöf Ríkarðsdóttir – Minningarorð

By 8. desember 2017No Comments

Skrifstofa Öryrkjabandalags Íslands verður lokuð eftir kl. 14:00 í dag, föstudaginn 8. desember, vegna útfarar Ólafar Ríkarðsdóttur, fyrrverandi formanns ÖBÍ.

Ólöf verður jarðsungin frá Grafarvogskirkju og hefst athöfnin kl. 15:00.  Blóm og kransar eru afþakkaðir. Þeir sem vilja minnast hennar er bent á Sjálfsbjörg.

Ólöf fæddist árið 1922. Hún hóf snemma þátttöku í réttindabaráttu fatlaðs fólks og nýtti krafta sína í þágu fatlaðs fólks og öryrkja ævina á enda. Hún tók þátt í stofnun Sjálfsbjargarfélagsins í Reykjavík 1958 og settist sama ár í framkvæmdastjórn landssambands Sjálfsbjargar.

Hún tók þátt í stofnun Öryrkjabandalags Íslands árið 1961 og sat þar í stjórn frá árinu 1971 til 1997. Hún var formaður ÖBÍ á árunum 1973-75 og svo aftur 1993-1997. Sem formaður lagði hún mikla áherslu á húsnæðismál öryrkja og uppbyggingu bandalagsins sem fatlað fólk nýtur góðs af enn í dag. Ólöf lyfti, ásamt fleirum, grettistaki í aðgengismálum fatlaðs fólks, varðandi aðgengi að opinberum byggingum, sérmerktum bílastæðum og ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk. Hún tók jafnframt virkan þátt í erlendu samstarfi og nýtti vel þá þekkingu sem hún aflaði sér hér heima.

Ólöf var óþreytandi baráttukona og brautryðjandi. Hún var öflug, drífandi og stöðugt í leit að nýjum leiðum til að bæta hag og réttindi fatlaðs fólks. Hún veitti mörgum mikilvægan stuðning við að takast á við lífið eftir langvarandi veikindi eða slys. Þá var hún mikil félagsvera og hafði góða nærveru. Þannig munum við Ólöfu Ríkarðsdóttur og minnumst hennar með söknuði, hlýju og þakklæti fyrir sitt framlag í þágu fatlaðs fólks og öryrkja.

Öryrkjabandalag Íslands sendir Ásdísi systur Ólafar, öðrum ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur.