Skip to main content
Frétt

Orð skulu standa!

By 9. september 2021október 6th, 2022No Comments
Smáauglýsing: Betra aðgengi að sálfræðiþjónustu- Orð stjórnmálamanna skulu standa Sálfræðingafélag Íslands og Öryrkjabandalag Íslands skora á stjórnmálaflokkana og frambjóðendur þeirra í kosningum til Alþingis að fjármagna og koma í framkvæmd lögum nr. 93/2020 um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu.

Lögin sem voru samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi tóku gildi um síðustu áramót en hafa ekki komið til framkvæmda.

Lög sett en ekki innleidd

Greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu öðlaðist gildi 1. maí 2017 með reglugerð nr. 214/2017 og með því var ákveðinn hámarkskostnaður almennings í þeirri heilbrigðisþjónustu sem fellur undir kerfið. Þrátt fyrir að Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) sé gefin sé heimild fyrir því að semja við sjálfstætt starfandi sálfræðinga í 1. gr. reglugerðarinnar hefur hún aldrei verið nýtt.

Lög um greiðsluþátttöku SÍ um sálfræðimeðferð fyrir fullorðna voru samþykkt á Alþingi 30. júní 2020 þvert á alla stjórnmálaflokka og með 54 greiddum atkvæðum. 9 alþingismenn voru fjarstaddir og því greiddi enginn þingmaður gegn frumvarpinu eða sat hjá. Lögin kveða á um að almenn sálfræðiþjónusta og önnur klínísk viðtalsúrræði falli undir greiðsluþátttökukerfi SÍ og verði þannig veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta.

Lögin tóku gildi 1. janúar 2021 en hafa ekki verið innleidd enda hefur tilheyrandi reglugerð ekki verið sett né hafa þau verið fjármögnuð. Fjárlaganefnd Alþingis lagði til að 100 m. kr. yrði veitt í niðurgreiðslu sálfræðimeðferðar fyrir árið 2021 en ljóst er að sú upphæð er langt frá því að fjármagna innleiðingu laganna.

Svikin? Þetta er ákall til stjórnmálamanna. Orð skulu standa!

Staðan í dag

Heilsugæslan verið styrkt sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga og hefur sálfræðingum fjölgað úr 33 í 66 á kjörtímabilinu. En þrátt fyrir þá uppbyggingu getur heilsugæslan ekki enn annað eftirspurn og þörf eftir sálfræðiþjónustu. Nú er um 9 mánaða bið eftir viðtali hjá sálfræðingi á öllum heilsugæslustöðvum og eftirspurnin slík að stöðvarnar verða að skammta tímana naumt og forgangsraða stíft. Í erindi Kristbjargar Þórisdóttur, sérfræðings í klínískri sálfræði við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á málþingi ÖBÍ þ. 20. apríl sl., kom fram að 37 barna- og fullorðinssálfræðingar eru starfandi á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í 28,4 stöðugildum en viðbótarþörfin er 35,4 stöðugildi.

Heimild heimilislækna og sálfræðinga hjá heilsugæslunni til að tilvísa sjúklingum áfram til sjálfstætt starfandi sálfræðinga er ekki til staðar. Geðheilsuteymi eru starfandi á vegum heilsugæslunnar, en þau hafa takmarkað bolmagn til að taka við sjúklingum og hafa vísað frá einstaklingum með þroskaraskanir.

Lög nr. 93/2020 hafa ekki verið innleidd með reglugerð og Sjúkratryggingar Íslands hafa hvorki fengið fjármagn né heimild til að semja við sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Algengt verð fyrir tíma hjá sálfræðingi er um 20 þúsund krónur, sem einstaklingurinn þarf að greiða úr eigin vasa. Oft er hægt að fá hluta kostnaðar endurgreiddan með styrk úr sjúkrasjóði stéttarfélags viðkomandi. Stór hluti fólks sem þarf á sálfræðiþjónustu að halda er þó ekki í stéttarfélagi, t.d. vegna örorku. Skert aðgengi að sálfræðiþjónustu bitnar hart á tekjulitlu fólki, “en árið 2015 taldi rúmlega 38% kvenna og 25% karla sig ekki hafa efni á þjónustunni. Þetta tengist menntunarstigi og tekjum, en um 63% kvenna og 42% karla sem lokið hafa grunnmenntun, og 53% kvenna og 36% karla í tekjulægsta hópnum töldu sig ekki hafa efni á slíkri þjónustu”. 

Fyrir hverja?

Starfsvettvangur sálfræðinga er fjölbreyttur. Þeir vinna meðal annars á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og einkareknum stofum, við skóla- og félagsþjónustu sveitarfélaga, í háskólum og fangelsum.

 • Sálfræðingar aðstoða fólk við að auka lífsgæði og bæta líðan.
 • Sálfræðingar sinna rannsóknum til að auka skilning á hugsun, líðan og hegðun fólks.

Starf sálfræðinga felur meðal annars í sér:

 • Mat og greiningu. Sálfræðingar nota réttmætar og áreiðanlegar aðferðir til að meta geðrænan vanda. Þeir nýta meðal annars sálfræðileg mælitæki og spurningar til að skilja og greina stöðu skjólstæðings, styrkleika og veikleika, skipuleggja meðferð og meta árangur meðferðar.
 • Sálfræðimeðferð. Sálfræðimeðferð, eins og t.d. hugræn atferlismeðferð, er á meðal áhrifaríkustu meðferða við geðrænum vanda (eins og þunglyndi og kvíða). Stundum ná einstaklingar bestum árangri með sálfræðimeðferð samhliða annarri meðferð, t.d. lyfjameðferð, en stundum er sálfræðimeðferð áhrifaríkust ein og sér.

Líkt og á við um líkamlega sjúkdóma þá getur geðrænn vandi verið margvíslegur. Sálfræðingar sérhæfa sig gjarnan í meðferð við ákveðnum vanda eða þjónustu við ákveðinn aldurshóp. Þegar unnið er með geðrænan vanda er ýmist unnið með einstaklingum, börnum og foreldrum, pörum, fjölskyldum eða stærri hópum. Dæmi um vanda en langt í frá tæmandi:

 • Þunglyndi og kvíði
 • Sambandsörðugleikar og fjölskylduvandi
 • Vandamál tengd vinnu, lífstíl eða samskiptum
 • Höfuðáverkar og heilabilun
 • Að takast á við lífshættulega eða langvarandi sjúkdóma (t.d. krabbamein, sykursýki, hjartasjúkdóma)
 • Hegðunar- og námserfiðleikar hjá börnum
 • Neysla vímuefna og misnotkun þeirra (t.d. reykingar, áfengi)

Sálfræðingar sinna einnig þverfaglegu samstarfi við annað heilbrigðisstarfsfólk í tengslum við geðrænan vanda og þarfir í meðferð. Þeir eiga í samstarfi við skóla og vinnustaði til að aðstoða börn og fullorðna við að ná sem bestum árangri og þróa og meta meðferðarúrræði með það að leiðarljósi að fólk fái rétta og árangursríka meðferð.

Auglýsing með augum, texti: Talgangslaust? Niðurgreidd sálfræðiþjónusta getur skipt sköpum