Skip to main content
Frétt

Örorkubyrði!

By 9. október 2018No Comments

Höfundur: Einar Björnsson, fulltrúi í málefnahópi ÖBÍ um kjaramál.

 

Mig langar að setja niður nokkur orð um þá sýn sem ég öryrkinn hef á stefnu stjórnvalda gangvart öryrkjum. Ég til heyri þessum hópi Íslendinga . Við erum sá þjóðfélagshópur sem harðast hefur orðið úti í hinu svokallaða góðæri sem sagt er að ríkt hafi hér á landi síðustu ár. Þar spilar stóra rullu afstaða stjórnvalda og skilningsleysi þeirra á veruleika öryrkja.

Verra en fyrir hrun

Til að byrja með má nefna að öryrkjar voru sá hópur sem mest var skertur í og eftir efnahagshrunið 2008. Þetta var bæði gert með frystingu bótafjárhæða og aukinni kostnaðarþáttöku, t.d. í heilbrigðisþjónustu. Síðan þá höfum við sem hópur borið skertan hlut frá borði á eiginlega öllum sviðum: Auknar tekjutengingar, lífeyrir hefur ekki hækkað samkvæmt lögbundnum viðmiðum, frítekjumörk fryst, auknar skerðingar gagnvart lífeyrisgreiðslum, „krónu á móti krónu“ skerðing, aukin skattbyrði og á engan hátt hefur verið komið til móts við þennan þjóðfélagshóp hvað varðar almennar hækkanir á verðlagi og t.d. húsnæði. Útkoman er sú að við sem hópur glímum við verri stöðu á allan hátt heldur en fyrir hrun.  

Stefnulaus töfralausn

Ekki hefur vantað fallegar yfirlýsingar stjórnmálamanna fyrir allar þær kosningar sem hér hafa verið síðustu ár og sérstaklega fyrir síðustu Alþingiskosningar en efndir eru engar. Okkur er lofað einhverskonar bót en hún er háð skilyrði sem stjórnvöld halda að sé einhvers konar töfralausn. Við eigum að þurfa að sætta okkur við að sett verði á svokallað starfsgetumat sem ekki er til bóta fyrir þennan hóp.

Mig langar að setja þetta aðeins í samhengi við aðgerðir og yfirlýsingar stjórnvalda síðustu ár. Hver er stefna stjórnvalda gagnvart öryrkjum? Spyr sá sem getur ekki gert sér neina grein fyrir því. Annars vegar höfum við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem skýrt er kveðið á að fatlað fólk eigi rétt á að lifa mannsæmandi lífi. Að fólk eigi að geta lifað með reisn og njóta framfærslu sem geri því kleift að búa við sambærileg lífskjör og aðrir í samfélaginu. Við eigum samkvæmt þeim samningi að fá stuðning til að eiga möguleika á að njóta allra þeirra tækifæra sem nútímasamfélag hefur upp á að bjóða til jafns við aðra, varðandi búsetu, nám, framfærslu og atvinnuþáttöku. Þetta er ekki mögulegt miðað við núverandi stefnu stjórnvalda.

Bráðsmitandi froða

Veruleikinn sem við búum við er allur annar. Sést það kannski best í þeirri orðræðu sem á sér stað í samfélaginu. Opinberlega hefur ítrekað verið talað um örorkubyrði samfélagsins, fullyrt er að hér sé gífurleg fjölgun öryrkja og tölur um það settar fram sem ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. Fullyrt er af opinberum aðilum að bótasvik séu veruleg og tölur nefndar um það sem hlaupa á einhverjum milljörðum árlega. Tölur sem kom síðar í ljós að voru byggðar á skoðanakönnun í Danmörku voru settar fram sem staðreyndir. Þetta var síðan notað af bæði þingmönnum og opinberum stofnunum. Þetta er kannski til marks um að í íslensku samfélagi er litið á þennan hóp fólks sem svikahrappa.

Það er talað um okkur eins og við séum að velja að vera ekki á vinnumarkaði til að geta lifað á ríkinu og því miður smitar þetta opinbera viðhorf líka viðhorf almennings.

Markviss afturför

Mig langar að skoða líka aðeins hvernig ríkisvaldið hefur að því er virðist markvisst þrengt kjör þessa hóps. Lífeyrir almannatrygginga hefur síðustu ár ekki hækkað í samræmi við þróun launa og verðlags.  Nú síðast var hækkun lífeyris 4,7% sem er ekki í samræmi við neinar þær viðmiðanir sem ætti að fara eftir samkvæmt lögum.  Þegar óskað var útskýringa frá fjármálaráðuneytinu á þessari hækkun komu svör sem segja í raun ekki neitt, það virðist vera metið á einhvern handahófskenndan hátt hvað lífeyrisþegar eigi að fá árlega í hækkun lífeyris almannatrygginga og við höfum ekki fengið að sjá neinar forsendur fyrir útreikningi þessarar upphæðar Þetta er ekki einstakt tilvik. Öryrkjabandalagið hefur látið reikna út hvað lífeyrir hefði átt að hækka síðasta áratuginn eða svo miðað við verðlag og launaþróun og sést þar greinilega að við sem hópur erum stöðugt að dragast aftur úr öðrum í samfélaginu. Þetta er heldur ekki það eina sem gert er, frítekjumörk öryrkja hafa verið óbreytt frá 2009. Skerðingar gagnvart greiðslum úr lífeyrissjóðum hafa verið auknar og við búum ennþá við svokallaða „krónu á móti krónu“ skerðingu hvað varðar aðrar tekjur.

Hvað svo?

Ég velti fyrir mér hvort hið opinbera sé á meðvitaðan hátt að skerða lífskjör öryrkja með þessum hætti eða hvort þetta sé einungis skilningsleysi þeirra sem koma að þessum málum af þeirra hálfu. Ég spyr sjálfan mig hvort leiðin til minnkaðrar örorkubyrði sé að gera lífskjör okkar svo slæm að fólk veigri sér í veikindum sínum að leita á náðir kerfisins eða hvort stjórnvöld líti svo á að við séum öll að svíkja út bætur af því að við nennum ekki að vinna?

Hvenær ætla íslensk stjórnvöld að standa við þær alþjóðaskuldbindingar sem þau hafa tekið á sig? Ég velti líka fyrir mér fyrirætlunum stjórnvalda varðandi starfsgetumat. Reynslan af því hefur hvergi verið góð og ekkert sem gefur til kynna að það muni verða einhvern veginn öðruvísi hér. Öryrkjar fá ekki hlutastörf þegar þeir leita eftir því.  Í því sambandi má nefna að milli 400 og 500 öryrkjar hafa verið skráðir í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun síðustu ár og ekki fengið störf.

Hvernig ætla stjórnvöld að skapa hlutastörf fyrir þá sem verða metnir með starfsgetu þegar vinnumarkaðurinn er ekki tilbúinn til að veita öryrkjum vinnu?

Er örorkubyrði kannski byrði sem öryrkjum er gert að bera vegna skilningsleysis hins opinbera?

 

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.