Skip to main content
Frétt

Öryrki vinnur mál gegn Reykjavíkurborg

By 5. júlí 2016No Comments

Kona sem er leigjandi hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins, stefndi Reykjavíkurborg til að fá viðurkennt að borginni væri óheimilt sé að mismuna borgurum eftir búsetu. Reykjavíkurborg hefur neitað að greiða konunni sérstakar húsaleigubætur vegna þess að hún leigir húsnæði hjá hússjóði Öryrkjabandalagsins en ekki hjá Félagsbústöðum eða á almennum markaði. Öryrkjabandalagið (ÖBÍ) studdi konuna í réttindabaráttu hennar.

Öryrkjabandalagið hefur barist fyrir því síðan 2009 að reglum borgarinnar um sérstakar húsaleigubætur verði breytt þannig að leigjendur hjá Brynju, hússjóði ÖBÍ, eigi rétt á sérstökum húsaleigubótum. Málinu hefur meðal annars verið skotið til innanríkisráðuneytisins sem komst að þeirri niðurstöðu í nóvember 2010 að regla borgarinnar um að einungis þeir sem leigja hjá Félagsbústöðum hf. eða á almennum markaði geti átt rétt á sérstökum húsaleigubótum, sé í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og til þess fallin að mismuna fólki. Beindi ráðuneytið þeim tilmælum til borgarinnar að breyta reglum sínum. Þrátt fyrir tilmæli ráðuneytisins og ítrekaðar áskoranir Öryrkjabandalagsins og samtöl formanns ÖBÍ við borgarstjóra hefur borgin þráast við að breyta reglunum.

Brynja hússjóður á og rekur íbúðir sem leigðar eru til öryrkja sem almennt eru illa staddir fjárhagslega. Þannig má almennt gera ráð fyrir að leigjendur Brynju þurfi á fjárhagslegri aðstoð að halda, líkt og raunin er með konuna í þessu máli. Hún fékk sérstakar húsaleigubætur á meðan hún leigði á almennum markaði en var synjað um bæturnar eftir að hún flutti inn í leiguhúsnæði á vegum hússjóðsins.

Reykjavíkurborg hefur sett almenna reglu um að sumir Reykvíkingar á leigumarkaði eigi alls ekki kost á þeim fjárstuðningi sem felst í sérstökum húsaleigubótum af þeirri ástæðu einni að þeir eru leigjendur hjá Brynju hússjóði, eða sambærilegum hússjóðum. Ákvörðunin um að synja einstaklingum sem leigja hjá Brynju er þannig tekin án nokkurs mats á högum þeirra. ÖBÍ hefur haldið því fram í mörg ár að með þessu sé borgin að mismuna íbúum sínum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða. Reglan afnemi með öllu mat á högum umsækjenda og ákvörðun sé þannig tekin án tengsla við raunverulega þörf fyrir aðstoð. ÖBÍ telur að reglan fari í bága við megintilgang sérstakra húsaleigubóta, þ.e. þann tilgang að hjálpa þeim sem mest þurfa á hjálp að halda.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2015 var aðalkrafa konunnar tekin til greina og synjun borgarinnar felld úr gildi. Dómurinn leit svo á að fyrrnefnd regla Reykjavíkurborgar fæli í sé að ekki væri gert ráð fyrir sérstöku mati á aðstæðum hvers umsækjanda fyrir sig. Fyrir vikið hefði Reykjavíkurborg með ólögmætum hætti takmarkað óhóflega og með ómálefnalegum hætti skyldubundið mat sitt á aðstæðum fólks.

Með dómi Hæstaréttar 16. júní sl. var héraðsdómurinn staðfestur. Hæstiréttur vísaði til sömu forsendna og niðurstaða héraðsdóms byggði á en bætti því einnig við að reglur borgarinnar mættu ekki mismuna borgarbúum nema slíkt hefði stoð í málefnalegum rökum. Þótti borgin ekki hafa sýnt fram á að mismunun reglnanna væri málefnaleg og að málefnalegur mismunur væri á stöðu íbúa eftir því af hverjum þeir leigðu.

Við viljum því hvetja alla þá sem leigja hjá Brynju hússjóði eða álíka félögum og hafa fengið höfnun á sérstökum húsaleigubótum til sækja um þær að nýju. Einnig viljum við hvetja þá sem telja sig mögulega eiga rétt á sérstökum húsaleigubótum hjá sveitarfélögum en hafa ekki sótt um að sækja um nú þegar. Eiga þessi hvatningaorð við um alla leigjendur á þessum leigumarkaði óháð sveitarfélagi.

Dómur Hæstaréttar hefur fordæmisgildi.