Skip to main content
Frétt

Öryrkjar hlunnfarnir um milljarða

By 4. janúar 2019No Comments
Tryggingastofnun ríkisins hefur hlunnfarið stóran hóp öryrkja um milljarða króna á undanförum árum. Bætur til yfir þúsund einstaklinga hafa verið skertar á grundvelli búsetu. Sú lagaframkvæmd TR stenst ekki. Þetta staðfestir velferðrráðuneytið sem segir í bréfi til velferðarnefndar Alþingis að TR hafi haft yfir hálfan milljarð af öryrkjum á hverju einasta ári í mörg ár.

Öryrkjabandalag Íslands hefur um langt skeið barist fyrir því að TR leiðrétti framkvæmd sína á útreikningi svonefndra búsetuskerðinga. Bandalagið aðstoðaði skjólstæðing sinn við að skjóta málinu til Umboðsmanns Alþingis. Hann birti í sumar álit sem er áfellisdómur yfir aðferðum TR í þessum málum. Málið hefur síðan verið á borði velferðarnefndar Alþingis og velferðarráðuneytisins.

Fram kemur í bréfi velferðarráðuneytisins til velferðarnefndar, 21. desember 2018, að viðurkennt er að TR eigi að – og muni – endurgreiða örorkulífeyrisþegum sem urðu fyrir þessum grimmu skerðingum. Fram kemur í bréfinu að TR hafi hlunnfarið um eitt þúsund manns árlega um ríflega 500 milljónir króna á ári. 

„Hér er komin viðurkenning á því að TR hefur haft rúmar 500 milljónir af öryrkjum á hverju einasta ári í mörg ár. Þetta eru tölur sem við höfðum skotið á en eru nú staðfestar. Þetta hefur viðgengist í a.m.k. 10 ár þannig að það má auðveldlega segja að TR hafi hlunnfarið öryrkja um a.m.k. 5-6 milljarða króna,“ segir Daníel Isebarn, lögmaður Öryrkjabandalags Íslands.

Hann bætir því við að þessi framkvæmd TR hafi sennilega staðið miklu mun lengur og upphæðir sem teknar hafa verið af öryrkjum gætu því verið mun hærri en sem þessu nemur.

Fram kemur í bréfinu að til standi að leiðrétta það sem fólk var hlunnfarið um fjögur ár aftur í tímann. Ekki hefur verið haft samráð við Öryrkjabandalag Íslands vegna þessa máls, en ÖBÍ telur ljóst að leiðrétta þurfi að minnsta kosti áratug aftur í tímann. Fyrir því eru skýrar lagalegar forendur að mati ÖBÍ en einnig siðferðislegar forsendur, enda blasir við að þessar skerðingar hafa viðgengist að minnsta kosti svo lengi og líklega mun lengur.

„Það liggur fyrir að TR hafi snuðað öryrkja um 500 milljónir á ári í fjölda ára en menn viðra hugmyndir um að greiða einungis 4 ár af þeim, jafnvel þótt árin séu 10 eða jafnvel 25. Það er ótrúlegt að ætla að reyna að bera fyrir sig fyrningu í svona máli, það er engin skylda á ríkinu að gera það. Ríkið er að gæla við þá hugmynd að greiða bara hluta til baka af því sem haft var ólöglega af fólki, fólki sem er með allra minnstu tekjurnar. Ég trúi því ekki að þetta endi þannig, ráðamenn hljóta að sjá að svoleiðis gerir maður ekki,“ segir Daníel Isebarn.

„Ljóst er að barátta Öryrkjabandalags Íslands í þessu máli hefur þegar skilað mikilvægum árangri fyrir skjólstæðinga bandalagsins. Fjölmargir munu nú fá greiddar vangoldnar bætur aftur í tímann en einnig betri réttindi og þar með hærri bætur til framtíðar. Þetta eru því mjög jákvæð tíðindi enda þótt málinu sé langt í frá lokið,“ segir Daníel Isebarn.