Skip to main content
AðgengiFrétt

Ráðherra ítrekar mikilvægi þess að réttindi fatlaðs fólks verði tryggð við kosningar

By 7. mars 2022ágúst 31st, 2022No Comments
Í byrjun febrúar sendi Þuríður Harpa Sigurðardóttir bréf til dómsmálaráðherra, þar sem minnt var á mikilvægi þess að réttindi fatlaðs fólks við framkvæmd kosninga yrðu tryggð. Nú hefur borist svar, frá félags- og vinnumarkaðsráðherra, í formi bréfs til Landskjörstjórnar. Þar ítrekar ráðherra mikilvægi þess að Landskjörstjórn tryggi að réttindi fatlaðs fólks verði höfð að leiðarljósi í kosningum í vor.

Í bréfi formanns ÖBÍ til dómsmálaráðherra frá því 8. febrúar, kom fram að í kosningum til sveitarstjórna í vor, væri í fyrsta sinn kosið eftir nýjum kosningalögum.

„Undanfarin ár hafa komið í ljós hnökrar á möguleikum fatlaðs fólks til að nýta kosningarétt sinn. Kjörklefar ætlaðir fólki í hjólastólum hafa verið opnir og leynileg kosning ekki alltaf möguleg. Kjósandi hefur ekki fengið að ráða aðstoð sinni í kjörklefanum og aðgengi að kjörstað sem og kjördeild hefur ekki alltaf verið upp á það besta.

Nú hefur ráðherra tækifæri til að bæta úr þessu. Leiðbeiningar til kjörstjórna og starfsmanna þeirra um framkvæmd aðstoðar við atkvæðagreiðslu þurfa að vera skýrar og í anda sjálfstæðs lífs. Kjörstjórnir og starfmenn þeirra þurfa að vera upplýst um mismunandi þarfir fatlaðs fólks, svo þau fái notið þessa grundvallar réttar að greiða atkvæði.

Nú er komin heimild til að nota rafræna kjörskrá, en í ákvæði um truflun á notkun hennar, er ekki að sjá að gert sér ráð fyrir að fatlaður einstaklingur lendi í því. Hér er þörf skýringa, og hlutverk aðstoðarmanns við kosinguna verður að vera skýrt, ekki síður en þekking kjörstjórna.“

Félags og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur tekið málið til sín, og hefur nú sent bréf til Landskjörstjórnar, þar sem hann ítrekar mikilvægi þess að réttindi fatlaðs fólks við framkvæmd kosninga verði tryggð.

Í bréfi ráðherra segir að samkvæmt nýjum kosningalögum sé það meðal verkefna landskjörstjórnar að „veita almenningi, frambjóðendum, fjölmiðlum, kjörstjórnum og öðrum sem annast framkvæmd kosninga upplýsingar, fræðslu og leiðbeiningar“ og „hafa samvinnu og samráð við viðeigandi aðila, félagasamtök og stofnanir við undirbúning og framkvæmd kosninga“

Í bréfi ráðherra kemur fram að ráðuneytið telji mikilvægt að gerðar verði leiðbeiningar fyrir kjörstjórnir um hvernig aðstæður á kjörstað, í kjördeildum og kjörklefum skuli úr garði gerðar til að þær séu aðgengilegar öllum kjósendum og að gert sé ráð fyrir aðgengi hreyfihamlaðra. Einnig þurfi kjörgögn að taka mið af ólíkum þörfum kjósenda og í því skyni þurfi m.a. að huga að gerð blindraspjalda eins og kveðið er á um í lögunum. Einnig að starfsfólk kjörstjórna fái leiðbeiningar um rétt viðmót þegar fatlað fólk mætir á kjörstað.

Í bréfinu leggur ráðuneytið til að gerðar verði leiðbeiningar um kosningarnar, í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, til að þær komi að sem mestu gagni.