Skip to main content
FréttHvatningarverðlaun

Ræða formanns ÖBÍ við afhendingu Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2019

By 4. desember 2019september 8th, 2023No Comments
Forseti Íslands, ágætu gestir, kæru félagar.
 

Í dag fögnum við alþjóðadegi fatlaðs fólks og afhendum hvatningarverðlaun ÖBÍ í þrettánda sinn. Við höfum haldið daginn hátíðlegan með þessum hætti síðan 2007, en það ár skrifaði Ísland undir Samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nær tíu árum síðar eða 2016 fullgilti Ísland samninginn, ..en við bíðum enn eftir lögfestingu hans. Standist áætlanir stjórnmálamanna verður það gert á næsta ári. Við höfum talað fyrir einu samfélagi fyrir alla í fjöldamörg ár. Við höfum unnið markvisst að því að fatlað fólk hafi sjálfstæði til jafns við aðra, jafnrétti og sömu tækifæri til þátttöku í samfélaginu.

Og á hverju ári fögnum við því sem áunnist hefur, stundum stóru og stundum smáu. Á hverju ári er 3. desember sá dagur sem við réttum upp hönd og segjum; við erum hér líka.

Það er gott að finna að við erum ekki ein í baráttunni, því á hverju ári leggur fjöldi einstaklinga, samtaka, fyrirtækja og stofnana baráttu okkar lið og hvetur með því til skilnings og viðhorfsbreytinga í garð fatlaðs fólks.

Sá samhugur sem kemur fram í margvíslegum verkefnum sem öll miða að því að efla fatlað fólk, skapa jákvæða ímynd og stuðla að einu samfélagi þar sem við öll í margbreytileikanum fáum notið okkar, er gott og mikið afl. Þessum einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum þökkum við þeirra framlag til réttindabaráttu okkar, þið eruð mikils virði.

Fyrsta sunnudag í aðventu settist ég við kertaljós með kakóbolla í hönd til að setja niður á blað orð sem gætu með einhverju móti lýst hug mínum í garð þeirra sem skilja og styðja réttindabaráttu okkar, sem erum í þeirri stöðu að hafa veikst, slasast eða fæðst fötluð. Ég skrunaði um á veraldarvefnum og skoðaði það sem skrifað hafði verið í tilefni 3. Desember á liðnum áratugum. Ég staldraði við grein sem birtist undir nafni Öryrkjabandalagsins árið 1998 og heitir Afléttum aðskilnaðarstefnunni. Ég ætla að grípa hér aðeins ofan í kafla þessa tveggja áratuga gömlu grein. – en greinin varð mér efni til talsverðrar umhugsunar.

„Þegar við nú fögnum hálfrar aldar afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna er við hæfi að líta ögn í eigin barm og spyrja: Hvernig höfum við staðið við okkar hlut? Vart þarf að fara mörgum orðum um að þeim öryrkja sem einungis getur reitt sig á bætur almannatrygginga er í reynd haldið frá eðlilegri þátttöku í mannlífinu. Hann má kallast góður ef hann þarf ekki að leita á náðir hjálparstofnana, en tölur sýna að rúmur helmingur skjólstæðinga Hjálparstofnunar kirkjunnar og Rauða krossins er öryrkjar ­ fólk sem vegna fötlunar og veikinda hefur ekki til hnífs og skeiðar. Þetta ástand hefur Hjálparstofnun kirkjunnar gagnrýnt og skorað á íslensk stjórnvöld að bæta svo net almannatrygginga að þeir sem þurfi á því að halda geti skapað sér mannsæmandi líf. Aðskilnaðarstefna á grundvelli fötlunar til viðbótar við þessar lágu bætur er hér á landi beitt ýmsum stjórnvaldsaðgerðum sem sporna gegn atvinnuþátttöku öryrkja, menntun og fjölskyldulífi. Hér er fyrst og fremst um að ræða jaðarskatta og tekjutengingar sem gagnvart öryrkjum ná út fyrir öll réttlætis- og skynsemismörk.“

Þessi grein sýnir okkur að barátta fyrir mannréttindum öryrkja, okkar sem erum fötluð og langveik, er langhlaup. Greinarhöfundur talaði um aðskilnaðarstefnu fyrir 20 árum, í dag tölum við um að breyta viðhorfi og að samfélagið sé fyrir okkur öll, að enginn sé skilinn eftir þegar sameiginlegum gæðum er skipt. Þessu þurfum við að halda hátt á lofti til að auka skilning samferðafólks og til að upplýsa þjóðina.  Og vissulega hefur dropinn holað steininn, þjóðin er upplýstari og samfélag okkar í dag með talsvert öðrum brag en fyrir tuttugu árum, umræðan er meiri og ég er viss um að eitt af stóru markmiðunum sem var lögfesting NPA notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, muni skila enn ríkari skilningi inn í alla anga okkar samfélags.

Ég ætla hér að lokum að segja ykkur stutta sögu úr hversdeginum en þannig er að ég fékk sendan tölvupóst í gær þar sem lýst var atburðarás sem átti sér stað á kaffihúsi í Hafnarfirði um helgina þessa fyrstu aðventuhelgi. En þannig var að þangað mættu tveir fatlaðir einstaklingar ásamt fylgdarkonum. Ferðin á kaffihúsið hafði verið þeim tilefni mikillar tilhlökkunar enda hafa þeir ekki val um að skreppa út af sambýli sínu nema einu sinni í viku. Farið var í bæinn og síðan inn á þetta góða kaffihús sem eigandi kaffihússins hefur kappkostað að gera aðgengilegt öllum. Þegar þau fjögur höfðu komið sér fyrir við eitt af þeim borðunum sem voru laus, kom til þeirra afgreiðslustúlka. Í stað þess að spyrja hvað mætti bjóða þeim, bað hún þau um að yfirgefa kaffihúsið, fólk hefði streymt þarna inn allan daginn og  betra væri að þau kæmu seinna – kaffihúsið væri fullt. Þetta minnir svolítið á aðra gamla sögu sem sögð er um þetta leyti árlega, er það ekki? Og eins og í þeirri gömlu sögu, hurfu þau á braut, þó ósátt væru, en án þess að gera háreisti.

Ég trúi að svona atburðir séu sjaldnar og sjaldnar að gerast, en um leið veit ég að við megum ekki hægja á okkur, og að við þurfum fleira og fleira fólk ,allstaðar að úr samfélaginu til að hlaupa með með okkur.

Það er sennilega fátt sem ekki hefur verið sagt eða talið upp í þakkarræðum. Sú staðreynd  að við erum á hverju ári að verðlauna nýja einstaklinga, nýjar stofnanir, fyrirtæki og verkefni sýnir okkur að við erum á fljúgandi ferð í mannréttindabaráttunni og að fleiri og fleiri leggjast á árarnar með okkur. Það er ánægjulegt að við veitum árlega  nýjum aðilum hvatningarverðlaun, því um leið vekjum við athygli á því að í samfélaginu er fullt af ófötluðu fólki sem skilur og styður mannréttindabaráttu okkar, sem skilur það að við fatlað fólk eigum að hafa sama rétt til að lifa með mannsæmandi hætti, sem skilur að við erum rétt eins og aðrir, mannauður. Öryrkjabandalagið þakkar af alhug framlag til réttindabaráttunnar. Fögnum fjölbreytileika og virðum það að við erum allskonar og eigum öll rétt á mannsæmandi lífi. Þannig samfélagi er gott að búa í. Takk fyrir!