Skip to main content
FréttHúsnæðismál

Rannsókn sýnir verri stöðu fatlaðs fólks á húsnæðismarkaði

By 18. nóvember 2022No Comments

Fatlað fólk er mun líklegra til að vera á leigumarkaði og borga stærri hluta tekna sinna í húsnæðiskostnað en aðrir á Íslandi. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í könnun sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði fyrir ÖBÍ réttindasamtök.

Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að 58% öryrkja búa í eigin húsnæði samanborið við 74% allra fullorðinna. 29 prósent öryrkja eru á leigumarkaði en 13 prósent allra fullorðinna hér á landi.

Þeir öryrkjar sem eru á leigumarkaði sögðu almennt erfitt að fá leigt húsnæði á almennum markaði og greiða stóran hluta tekna sinna í sinn hlut af rekstri húsnæðisins. Alls sögðust 12% greiða meira en 75% útborgaðra launa en 25% greiða á milli 51% og 75%.

Fatlað fólk á leigumarkaði er tvöfalt líklegra en fólk alls til að hafa mjög eða frekar miklar áhyggjur af kostnaðinum við rekstur húsnæðis, eða 38% samanborið við 19%.

Könnunin leiðir í ljós að staða fólks sem býr í leiguhúsnæði er almennt verri. Það greiðir hærra hlutfall tekna í rekstur, hefur meiri áhyggjur af kostnaðinum og er líklegara til þess að lenda í vanskilum.

Lesa má nánar um aðferðafræði og niðurstöður með því að smella á þennan hlekk.