Skip to main content
Frétt

Reglugerðir eiga ekki að skerða réttindi fatlaðs fólks

ÖBÍ réttinda samtök fagna því að niðurstaða Umboðsmanns Alþingis sé að fötluð börn skuli fá niðurgreiðslu á hjálpartækjum frá Sjúkratryggingum Íslands Þessi niðurstaða hefur verulega þýðingu og er mikilvæg fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra, fötluð ungmenni og fullorðið fatlað fólk í sömu stöðu.

ÖBÍ réttindasamtök hvetja stjórnvöld og SÍ til að bregðast við og jafna stöðu fatlaðs fólks svo það njóti þess sama og aðrir í sínu daglega lífi, svo sem útiveru og hreyfingar. Reglugerð um hjálpartæki meinar styrkúthlutun vegna hjálpartækja sem á að nota í frístundum eða til afþreyingar og líkamsræktar.

Stangast á við SRFF

Að mati Umboðsmanns er gildandi löggjöf ekki til þess hugsuð að skerða réttindi barns til leiks eða tómstunda. Einnig sé fjallað um réttindi um aðstoð við fötluð börn og aðgengi þeirra að leikjum, tómstundum og frístunda- og íþróttastarfi í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

„[Umboðsmaður] taldi því að ráðherra hefði m.a. borið að tryggja, að því marki sem honum var unnt, að ekki væri dregið úr þeim réttindum sem fólki með fötlun væru tryggð í stjórnarskrá, lögum og alþjóðasamningum,“ segir í áliti Umboðsmanns orðrétt.

Úrelt hugmyndafræði

Heilbrigðismálahópur ÖBÍ hefur til margra ára barist fyrir því að viðkomandi reglugerðarákvæði verði fjarlægt enda samrýmist það ekki ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ákvæðið er heftandi og byggir á og ýtir undir úrelta hugmyndafræði. Það gefur til kynna að fatlað fólk eigi helst að vera heima hjá sér.

Málefnahópurinn kom því til leiðar að starfshópur um hjálpartæki var skipaður af heilbrigðisráðherra sem skilaði af sér skýrslu í september 2019, þar sem ýmsar tillögur til úrbóta voru lagðar til, þar á meðal breytingar á löggjöf.

Heilbrigðishópurinn lagði til breytingar á reglugerðinni vorið 2020 til að liðka fyrir vinnu ráðuneytisins en ekki hefur verið tilkynnt um neinar breytingar í þeim efnum. Fjármagn hefur verið sett í undirbúningsvinnu en engar upplýsingar verið birtar um hvernig sú vinna stendur.

„Málefnahópur ÖBÍ um heilbrigðismál ályktar að nú sé brýnt að taka næsta skref í átt að breytingu á fyrirkomulagi hjálpartækjamála til samræmis við ákvæði SRFF. Endurskilgreining hjálpartækja og breytingar á löggjöf er mikilvægur liður í þeirri vinnu. Í ljósi þess leggur málefnahópur ÖBÍ um heilbrigðismál til framangreindar breytingar á skilgreiningu hjálpartækja í íslenskum lögum og reglugerðum,“ sagði í tillögu málefnahópsins sem send var ráðherra þann 27. mars 2020.

Umboðsmaður hefur áður komist að svipaðri niðurstöðu í máli fullorðinnar konu sem lést áður en úrskurður féll. Sjúkratryggingar Íslands hafa virt það álit að vettugi. ÖBÍ réttindasamtök skora á SÍ að breyta afstöðu sinni í málum sem þessum án tafar.