Skip to main content
FréttHeilbrigðismál

Reglur um greiðslu ferðakostnaðar í ósamræmi við lög

Reglur Sjúkratrygginga Íslands um að krefjast vottorðs frá lækni í heimabyggð til að SÍ taki þátt í greiðslu ferðakostnaðar vegna sjúkdómsmeðferðar eru ekki í samræmi við lög. Þetta kemur fram í áliti sem umboðsmaður Alþingis birti nýverið.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafði staðfest synjun SÍ við umsókn einstaklings um greiðsluþátttöku í ferðakostnaði vegna sjúkdómsmeðferðar á grundvelli þessara reglna. Synjunin byggðist á því að læknir í öðru byggðarlagi en hans eigin hafði vísað honum til þriðju byggðarinnar að sækja sjúkdómsmeðferð. Í reglugerðarákvæðinu segir að „læknir í heimabyggð“ þurfi að vísa einstaklingi frá sér til sjúkdómsmeðferðar.
Umboðsmaður bendir í áliti sínu á að „lögum samkvæmt ætti sjúklingur bæði rétt á að leita til þeirrar heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar sem hann ætti auðveldast með að ná til hverju sinni og til þess læknis sem honum hentaði best“. Þar af leiðandi þrengir þetta skilyrði SÍ að rétti sjúklinga til að leita læknis utan heimabyggðar.

ÖBÍ réttindasamtök hvetja Sjúkratryggingar til þess að taka fullt tillit til þessa álits umboðsmanns Alþingis og tryggja að ekki sé gengið á rétt sjúklinga. Þá taka ÖBÍ réttindasamtök undir tilmæli Umboðsmanns um að heilbrigðisráðuneytið líti til sjónarmiða Umboðsmanns við fyrirhugaða endurskoðun á reglugerðinni.