Skip to main content
Frétt

„Reka ekki veikt fólk út á vinnumarkaðinn gegn vilja þess“

By 26. nóvember 2018No Comments

Fjallað var um ályktun stjórnar Öryrkjabandalags Íslands á Alþingi í dag. Stjórn ÖBÍ bendir á að óskertur lífeyrir almannatrygginga sé innan við 239 þúsund krónur á mánuði. Þess er krafist að þeir 4 milljarðar sem lofað var að settir yrðu í almannatryggingakerfið til að hefja leiðréttingar á kjörum öryrkja skili sér án tafar. Og þá var jafnframt minnt á samráðið sem ríkisstjórnin hreykir sér gjarnan af.

Gulrót og kylfa

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, vakti athygli á ályktun stjórnar ÖBÍ í fyrirspurn til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna. Og hann talaði um gulrót og kylfu, sem stjórnvöld réttu öryrkjum. Kjarabætur í skiptum fyrir starfsgetumat. Sem kunnugt er hafa stjórnvöld farið fram með þessa kröfu, og tengt saman sanngjarnar kjarabætur og löngu tímabært réttlæti við upptöku starfsgetumatsins.

Öryrkjabandalag Íslands hefur, líkt og þorri verkalýðshreyfingarinnar, lagst alfarið gegn starfsgetumatinu. Öryrkjabandalagið hefur sömuleiðis bent ítrekað á að engin tengsl eru á milli þess hvernig vinnufærni fólks er metin, og hvernig haga eigi framfærslu fólks sem hefur skerta starfsgetu. Enn hefur bandalagið marg bent á hina óréttlátu krónu-á-móti-krónu skerðingu, sem ekki aðeins heldur fólki í fátæktargildru, heldur hindrar beinlínis að fólk geti sótt út á vinnumarkað til að bæta sinn hag. Það er fullkomlega sjálfstætt réttlætismál að afnema þetta kerfisbundna ofbeldi.

„Auðvitað þurfum við að finna skynsamlegar leiðir og

reka ekki veikt fólk út á vinnumarkaðinn gegn vilja þess.“

– Katrín Jakobsdóttir

Viljum við breyta?

Katrín flutti hefðbundinn málflutning stjórnarliða um mikla aukningu til öryrkja, en eins og bent hefur verið á, er ekki allt sem sýnist í þeim efnum. Síðan minnist hún á þá vinnu sem nú er í gangi hjá starfshópi um endurskoðun á almannatryggingakerfinu, en upptaka starfsgetumats hefur heitið því nafni í málflutningi stjórnvalda upp á síðkastið.

Sá hópur starfar undir forystu félags- og jafnréttismálaráðherra, sem í dag er Ásmundur Einar Daðason úr Framóknarflokknum. Katrín sagði að sameiginlegt markmið allra í hópnum, en ÖBÍ á aðild að honum, væri að auka samfélagsþátttöku öryrkja. Þá vitnaði Katrín í upplýsingar af fundi með forystumönnum ÖBÍ um að Ísland stæði einna lakast af Evrópulöndunum þegar kæmi að þátttöku á vinnumarkaði.

Katrín spurði: „Viljum við breyta því?“

Og hún svaraði spurninginni sjálf með þessum hætti: „Ég tel að allir í þessum hópi vilji breyta því. En auðvitað þurfum við að finna skynsamlegar leiðir og reka ekki veikt fólk út á vinnumarkaðinn gegn vilja þess. Um það á þetta ekki að snúast.“

Það á heldur ekki að neyða fólk í fátæktargildru. 

Það er ekki aðeins ranglátt, heldur líka óskynsamlegt. 

Heimsmet?

Öryrkjabandalag Íslands hefur ítrekað bent á það sem blasir við öllum. Ef raunverulegur áhugi er fyrir skynsamlegum leiðum til að auka atvinnuþátttöku öryrkja, þá á að afnema krónu-á-móti-krónu skerðinguna nú þegar. Ábatinn af því yrði ótvíræður, fyrir fólk með skerta starfsgetu og samfélagið í heild.

Ísland þarf að standa sig betur ef marka má samanburðinn við önnur Evrópulönd, líkt og forsætisráðherra benti á í þinginu. En fyrst og fremst þurfa stjórnvöld að standa sig betur. Enda eru þau varla mörg í heiminum sem leggja slíkar 100% skerðingar á einn hóp fólks. 

Auðvitað eru allir sammála um það markmið að óháð því hvaða aðferð notuð er til að meta ýmist örorku eða starfsgetu fólks, þá eigi aldrei að neyða fólk til nokkurs hlutar. Forsætisráðherra var skýr um það og því er ÖBÍ sammála.

Það á heldur ekki að neyða fólk til þess að sitja fast í fátæktargildru. Það er samt sú staða sem við búum við og það er ekki aðeins ranglátt, heldur líka óskynsamlegt. Það veit forsætisráðherra vel.

Stjórnvöld verða einfaldlega að afnema krónu-á-móti-krónu skerðinguna án tafar. Þetta er bara spurning um skynsemi.