Skip to main content
Frétt

Reykjavík vill ekki akstur fatlaðs fólks um göngugötur

By 12. júní 2020No Comments
Reykjavíkurborg hefur sent umhverfis og samgöngunefnd Alþingis og Samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytinu minnisblað, þar sem farið er fram á að nýjum umferðarlögum verði breytt. Það sem fer fyrir brjóstið á samgöngustjóra borgarinnar er heimild fyrir handhafa stæðiskorta hreyfihamlaðra að aka göngugötur.

 

Ný umferðalög tóku gildi 1. janúar síðastliðinn. Í þeim er að finna það nýmæli að undanþága er fyrir handhafa stæðiskorta hreyfihamlaðra frá banni við akstri um göngugötur. Að mati Reykjavíkurborgar er það nokkuð stór hópur sem hefur heimild til að aka um göngötur, en í minnisblaðinu kemur fram að handhafar stæðiskorta hreyfihamlaðra þann 4 febrúar 2020 voru 5243 á Reykjavíkursvæðinu. Reykjavíkurborg telur að akstur vélknúinna ökutækja hafi neikvæð áhrif á öryggi gangandi vegfarenda og annara sem dvelja þar, svo sem á kaffihúsum. Borgin telur „vandséð í hvaða tilgangi hreyfihamlaðir eigi að aka um göngugötur, ef þar er ekki að finna bílastæði fyrir hreyfihamlaða“. Borgin segir í minnisblaðinu að við skipulag göngugatna sé þess gætt að jafnaði að stæði fyrir hreyfihamnlaða séu sem næst göngugötusvæðinu.

Hér er rétt að taka fram að lengsta göngugatan í Reykjavík er hluti Laugavegar, og þar eru allar hliðargötur í talsverðum halla.

Þá telur samgöngustjóri að hjarðhegðun Reykvíkinga sé þannig að sé ákveðnum hópi heimilað að aka ómerktum bílum inn á göngugötur, fylgi aðrir ökumenn í kjölfarið í þeirri trú að það sé leyfilegt. Með sömu rökum má segja að fari einn ökumaður yfir á rauðu ljósi, fylgi aðrir í blindni á eftir.

Reykjavíkurborg fer fram á þá breytingu að sveitarfélögum,  í samráði við lögreglu, sé falið að móta heimildir fyrir akstri á göngugötum með tiliti til aðstæðna á hverjum stað. Þannig sér Reykjavíkurborg fyrir sér að binda akstur akstursþjónustu fatlaðra, sem og handhafa stæðiskorta, við ákveðinn tíma dagsins, eða ákveðna daga vikunnar.

Aðgengi fatlaðs fólks að miðborginni  er þannig skert verulega, og aðeins í boði þá daga, eða á þeim tíma dags, er embættismenn telja hentugt að fá fatlað fólk í bæinn.

Það getur seint talist uppfylla skilyrði um jafnt aðgengi fyrir alla, eða þá samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en hann tekur einmitt sérstaklega á aðgengismálum. Í samningnum er tekið fram að  þau borgaralegu, menningarlegu, efnahagslegu, stjórnmálalegu og félagslegu réttindi sem samningurinn mælir fyrir um taka til allra einstaklinga en samningurinn tekur á þeim aðgerð­um sem aðildarríki verða að grípa til í því skyni að tryggja að fatlað fólk njóti þeirra til jafns við aðra. Á meðal þeirra réttinda sem samningurinn tekur sérstaklega á eru réttur til þátttöku í stjórnmálum og opinberu lífi og réttur til þátttöku í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi.

Samningurinn staðfestir einnig bann við mismunum fatlaðs fólks og þar segir að aðildarríki hans skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, upplýsingum og samskiptum, þar með talið upplýsinga og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annari aðstöðu og þjónustu sem veitt er almenningi, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Fyrrnefndar ráðstafanir, sem skulu meðal annars felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til bygginga, vega, samgangna og annarar aðstöðu innan dyra sem utan, þar með talið skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða.

Ekki er að sjá að Reykjavíkurborg hafi verið með hugann við þessi réttindi við samningu minnisblaðsins.