Skip to main content
Frétt

Reykjavíkurborg uppfærir tekju og eignaviðmið

By 12. febrúar 2021No Comments
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær, 11. febrúar, að uppfæra tekju og eignaviðmið þau sem liggja á bak við sérstakan húsnæðisstuðning. Félags og barnamálaráðherra hafði uppfært viðmiðunartölur þessar um áramótin, sem Öryrkjabandalagið hafði þrýst á um. Þær tölur eru hins vegar aðeins til hliðsjónar fyrir sveitarfélögin. Reykjavíkurborg hefur nú ákveðið að hækka sín viðmið til samræmis, og gildir sú hækkun afturvirkt, frá og með 1. janúar 2021.

Sviðsstjori velferðarsviðs lagði tillöguna upphaflega fyrir velferðarráð á fundi þess 20. janúar síðastliðinn. Í greinargerð með tillögunni segir m.a.:

„Reglur Reykjavíkurborgar um viðmið fjárhæða fyrir sérstakan húsnæðisstuðning taka mið af leiðbeiningum Félagsmálaráðuneytisins fyrir sveitarfélög um framkvæmd sérstaks húsnæðisstuðnings. Þann 21. desember 2020 uppfærði félags- og barnamálaráðherra viðmiðunarfjárhæðir í leiðbeiningunum. Breytingar á viðmiðunarfjárhæðum í reglum Reykjavíkurborgar munu fela í sér að frítekjumörk hækka um 3,6% og eignamörk um 7,23% og gilda þær breytingar frá 1. janúar 2021.  Samkvæmt reglugerð nr. 1341/2020 um húsnæðisbætur munu viðmiðunarmörk hækka til samræmis við hækkun á framfærsluviðmiði almannatrygginga. Með því móti munu lífeyrisþegar almannatrygginga njóta óskertra húsnæðisbóta.“

Við þær breytingar sem gerðar voru á almannatryggingum um síðust áramót, þar sem þeir sem engar tekjur hafa fengu sérstaka hækkun, var ljóst að gera þyrfti breytingar á viðmiðunarfjárhæðum um sérstakan húsnæðisstuðnig. Ef ekkert hefði verið að gert hefðu þessar hækkanir í raun horfið, þar sem réttur þeirra, sem hækkunin náði til, til sérstaks húsnæðisstuðnings hefði fallið niður. Þannig hefði í hækkunin til þeirra sem enga möguleika eiga á að afla sér annara tekna, í raun gengið til sveitarfélaganna. Öryrkjabandalagið benti ráðherra strax á að þetta væri yfirvofandi, yrði ekkert að gert og brást hann við á þann hátt sem að ofan greinir. Nú hefur Reykjavíkurborg stigi sama skref, sem er afar ánægjulegt. Mikilvægt er að önnur sveitarfélög fylgi í kjölfarið.