Skip to main content
DómsmálFrétt

Ríkið sýknað í héraðsdómi vegna Krónu móti krónu máls.

By 26. apríl 2022ágúst 31st, 2022No Comments

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi dóm fyrir stuttu þar sem tekist var á um þann hluta dómsmáls Öryrkjabandalagsins gegn ríkinu vegna þess sem í daglegu tali eru nefndar króna á móti krónu skerðingar. Áður hafði efnisdómur og sýkna, fallið um hluta málsins, og þeim dómi var áfrýjað til Landsréttar. En þá vísaði héraðsdómur frá hluta krafna ÖBÍ, sem var kært til Landsréttar. Landsréttur felldi þann úrskurð héraðsdóms úr gildi, og vísaði þeim hluta málsins aftur til meðferðar þar, og það er sá hluti málsins sem nú hefur hlotið efnisdóm.

Málatilbúnaður ÖBÍ byggðist helst á því að réttur ellilífeyrsþega og örorku- og endurhæfingalífeyrisþega til greiðslna samkvæmt ákvæðum laga nr. 99/2007, sé réttur til aðstoðar í skilningi 76. gr. stjórnarskrárinnar. Það leiði af ákvæðum 65. greinar stjórnarskrárinnar að löggjafanum sé skylt að tryggja öllum sem falli undir 76. greinina, jafnan rétt til aðstoðar. Þar sem mismunandi reglur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, að því er varðar skerðingu greiðslna til ellilífeyrisþega annars vegar og örorku- og endurhæfingalífeyrisþega hins vegar, vegna tekna, séu ekki reistar á hlutlægri og málefnalegri ástæðu, sem uppfylli kröfur jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og sé sú mismunun sem leiði af þeim, því andstæð stjórnarskrá.

Í rökstuðningi dómsins segir meðal annars að hendur löggjafans til breytinga á lögum verði ekki bundnar við að eitt að löggjafinn hafi áður ákveðið að sömu reglur skuli gilda um tiltekna aðila. Dómurinn telur ekki hægt að fullyrða að staða örorku- og endurhæfingalífeyrisþega sé í öllu tilliti hin sama eða sambærileg stöðu ellilífeyrisþega, hvorki fyrir eða eftir gildistöku þeirra lagabreytinga sem skildu á milli hópanna og deilt er um.

Án þess að dómurinn sé rakinn í smáatriðum kemst dómarinn að þeirri niðurstöðu að ekki sé unnt að fallast á málatilbúnað stefnenda og því beri að sýkna.

Dómnum verður áfrýjað til Landsréttar, þar sem málið mun þá sameinast þeim hluta þess sem áður hafði verið áfrýjað.

Ferill málsins er rakin á síðu um dómsmál ÖBÍ, sem finna má hér.