Skip to main content
AlmannatryggingarFrétt

Ríkisstjórnin samþykkir að hefja vinnu við endurskoðun almannatrygginga

By 11. mars 2022ágúst 31st, 2022No Comments
Á fundi ríkisstjórnar í morgun, föstudaginn 11. mars, var samþykkt tilllaga Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags og vinnumarkaðsráðherra, að skipa stýrihóp ráðuneyta sem hefur það hlutverk að hafa yfirsýn yfir endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu, í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Fulltrúi frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu mun leiða vinnu hópsins en í honum verða einnig fulltrúar frá forsætisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu. Fyrir stýrihópinn mun svo starfa sérstakt sérfræðiteymi ráðuneytanna sem mun vinna að undirbúningi, útfærslum og innleiðingu breytinga á greiðslu- og þjónustukerfi almannatrygginga fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu og útfæra tímasettar aðgerðir þannig að breyta megi kerfinu í áföngum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkana er lögð rík áhersla á að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði einstaklinga með skerta starfsgetu. Sérstök áhersla er lögð á að bæta kjör þeirra sem lakast standa og auka tækifæri fólks til þátttöku á vinnumarkaði. Er stofnun stýrihópsins hluti af þeirri vinnu.

Öryrkjabandalagið hefur ýtt á það um langan tíma að þessi endurskoðun færi fram, enda löngu tímabær. Stagbætt kerfi almannatrygginga er letjandi til þátttöku á vinnumarkaði, þrátt fyrir að meðal öryrkja sé ríkur vilji til að vera hluti af honum. Skerðingar og keðjuverkandi áhrif meðal annars á húnæðisstuðning, eru eitthvað sem erfitt er að sjá fyrir, og alltof algengt að öryrkjar lendi reglulega í skuld við Tryggingastofnun.

Samkvæmt frétt á heimasíðu stjórnarráðsins verður sérstök áhersla lögð á að breytingarnar verði útfærðar og innleiddar í samráði við helstu hagsmunaaðila, svo sem Öryrkjabandalag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Geðhjálp, aðila vinnumarkaðarins, og í samstarfi við stofnanir, önnur ráðuneyti og aðra hlutaðeigandi aðila eftir því sem við á.

Í fréttinni er haft efitr Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Eitt af aðal áherslumálum mínum í embætti félags- og vinnumarkaðsráðherra er að taka málefni örorkulífeyrisþega til endurskoðunar, með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði fólks með skerta starfsorku. Kerfið eins og það er í dag er of flókið og það hamlar atvinnuþátttöku og bættum lífskjörum. Rætt hefur verið um breytingar á kerfinu í langan tíma, margar nefndir skilað góðu starfi og því lít ég svo á að við séum að setja í framkvæmdagírinn og óska eftir góðu samstarfi við alla hlutaðeigandi í þessari mikilvægu vinnu. “

Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalagsins fagnar því að þessi vinna sé nú loks að hefjast fyrir alvöru.

„Árum saman hafa það verið rök stjórnmálamanna gegn hækkun lífeyris almannatrygginga, að heildar endurskoðun hafi ekki farið fram. Við fögnum því að hún sé nú loks að hefjast, og að sú endurskoðun eigi að fara fram í samvinnu við fatlað fólk. Ráðherra talar um að setja nú í framkvæmdagírinn, og það er von okkar að sú samvinna sem hann boðar, þýði að við munum hafa áhrif á hver stefnan verður. Hún mun vonandi leiða til raunverulegra kjarabóta fyrir fatlað fólk og þar með lífs til jafns við aðra. Það er von mín að þessi vinna gangi hratt og örugglega fyrir sig.“