Skip to main content
Frétt

Römpum upp Reykjavík

By 11. mars 2021No Comments
Aðgengissjóður Reykjavíkur var formlega stofnaður í morgun, fimmtudaginn 11. mars. í Iðnó. Tilgangur sjóðsins er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum í Reykjavík. Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er aðal hvatamaður verkefnisins og helsti styrktaraðili. Öryrkjabandalagið er meðal stofnaðilia, en stefnan er á 100 rampa strax á þessu ári.

Undir slagorðinu „Römpum upp Reykjavík“, er stefnt að því að setja upp 100 rampa fyrir fólk á hjólastólum eins fljótt og auðið er í Reykjavík. Verkefnið og sjóðurinn var kynntur á blaðamannafundi í Iðnó í morgun, fimmtudaginn 11. mars. Fjölmörg fyrirtæki einstaklingar koma að stofnun sjóðsins, sem mun standa straum af meginkostnaði fyrir þá verslunar- opg veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu. Þeim stendur til boða að fá allt að 80% af kostnaði við ramp endurgreiddan úr sjóðnum.

„Ég þekki það manna best að ætla að sækja einhvern viðbur, fara á veitingastað eða einfaldlega í verslun sem er mér ekki aðgengileg. Mörgum rekstraraðilum hefur reynst kostnaðurinn fyrirstaða því oft um viðkvæman rekstur að ræða og er því mikilvægt að tryggja aðgengi að fjármagni. Því er ég mjög stoltur af þessu verkefni og þakklátur öllum þeim sem hafa ákveðið að leggja Römpum upp Reykjavík lið,“ segir Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og forsprakki Römpum upp Reykjavík.

Á fundinum í morgun tóku einnig til máls Guðni Th. Johannesson, forseti Íslands ásamt Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Degi B. Eggertsyni, borgarstjóra. Í máli þeirra kom fram ánægja með verkefnið og eining um mikilvægi þessa að tryggja betra aðgengi fyrir fólk í hjólastól.

Reykjavíkurborg er meðal stofnaðila að verkefninu og mun tryggja góðan framgang þess, en með römpunum verður stóraukið aðgengi að verslunum og veitingastöðum í Reykjavík. Verkefnið verður unnið í góðu samstarfi við eigendur viðkomandi bygginga og skipulagsyfirvöld.

Stofnaðiliar auk Haraldar Þorleifssona eru Öryrkjabandalagið, Sjálfsbjörg, Byko, Kvika banki, Reginn, Reykjavíkurborg, Össur, Félagsmálaráðuneytið, Hagar, Íslandsbanki, Stjórnarráðið, Aton .JL, Brandenburg og ÍAV.

„Við stefnum á að ná 100 römpum eins fljótt og auðið er og fyrir árslok 2021 og verður þetta til að auka enn frekar fjölbreytni mannlífsins í borginni,“ segir Haraldur.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um verkefnið og sækja um styrk á vefsíðu þess.