Skip to main content
FréttHeilbrigðismálSjúkratryggingar

Sálfræðimeðferð verður niðurgreidd af Sjúkratryggingum.

By 30. júní 2020september 1st, 2022No Comments
Alþingi samþykkti á síðasta fundi sínum fyrir þinghlé, þingmannafrumvarp um að sjúkratryggingar taki frá og með 1. Janúar 2021 til nauðsynlegrar sálfræðimeðferðar og annarar gagnreyndrar samtalsmeðferðar heilbrigðisstarfsmanna eins og segir í frumvarpi því sem var samþykkt.
Flutningsmenn þessa máls voru úr flestum stjórnarandstöðuflokkunum, en fyrsti flutningsmaður var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Meðflutningsmenn foru úr flestum flokkum, utan VG, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorsteinn Víglundsson, Viðreisn, Björn Leví Gunnarsson, Smári McCarthy, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson frá Pírötum, Helga Vala Helgadóttir, Guðjón S. Brjánsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðmundur Andri Thorsson, Oddný G. Harðardóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir og Logi Einarsson Samfylkingu, Bryndís Haraldsdóttir Sjálfstæðisflokki, Anna Kolbrún Árnadóttir, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki, Inga Sæland Flokki fólksins, Andrés Ingi Jónsson utan flokka, Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki.
 
Samkvæmt greinargerð flutningsmanna er markmið laganna að almenn sálfræðiþjónusta og önnur gagnreynd samtalsmeðferð, verði veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta. Vaxandi fjöldi fólks greinist með geðraskanir eða önnur andleg veikindi, og hefur aðgengi þessa hóps að þjónustu og úrræðum verið takmarkað og kostnaður töluverður. Þetta hefur ÖBÍ bent á um áraraðir, og unnið að því að fá þessar breytingar fram.
 
Öryrkjabandalagið sagði í umsögn sinni um frumvarpið að sálfræðimeðferð væri lykilþáttur í meðhöndlun ýmissa sjúkdóma og áfalla, og mikilvæg forvörn gegn alvarlegri sjúkdómum. ÖBÍ telur brýnt að fólk með einkenni geðraskana, eða sem glímir við aðra andlega eða sálræna erfiðleika, hafi greiðan aðgang að sálfræðiþjónustu.
 
ÖBÍ lagði áherslu á að meðan sálfræðiþjónusta er utan greiðsluþátttökukerfis er hún ekki raunhæfur kostur fyrir þorra fólks og alls ekki fyrir þá hópa sem eru í mestum áhættuvanda, svo sem örorkulífeyrisþegar, ungt fólk og láglaunafólk.
 
Í nefndaráliti velferðarnefndar segir að þó gera verði ráð fyrir því að kostnaður fylgi breytingunum til skamms tíma, muni þær til lengri tíma spara ríkissjóði háar fjárhæðir og koma í veg fyrir óþarfa þjáningu einstaklinga sem eiga við geðheilbrigðisvandamál að stríða.
 
Samþykkt þessa frumvarps er mikil réttarbót fyrir þá sem reiða sig á örorkulífeyri til framfærslu, og vinna sér þar með ekki inn rétt til niðurgreiðslu á sálfræðimeðferð með aðild að stéttarfélögum, líkt og þeir sem eru á vinnumarkaði. Öryrkjabandalagið fagnar því samþykkt þessa frumvarps og telur hér mikið framfaraskref, og full ástæða til að hrósa Alþingi fyrir.