Skip to main content
Frétt

Sammála um afnám „krónu-á-móti-krónu“ skerðinga

By 31. janúar 2018No Comments

„Ég heyrði í síðustu viku að endurskoða ætti m.a. krónu á móti krónu regluna. Við erum öll sammála um að það beri að endurskoða hana og helst afnema. Mér heyrist ekki síst stjórnarþingmenn vera því hlynntir og vil hvetja þá til dáða,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á Alþingi  í dag.

Þorgerður varði megninu af ræðu sinni í umræðum um störf þingsins til að vekja athygli á brýnum réttindamálum fatlaðs fólks. Hún sagði meðal annars:

„Ég vildi vekja sérstaka athygli á atvinnuþátttöku fatlaðra og því sem stendur m.a. í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar er sem betur fer rætt nokkuð mikið um að það eigi að vera samráð við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp til að efla samfélagsþátttöku fatlaðra, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega, og ég heyrði í síðustu viku að endurskoða ætti m.a. krónu á móti krónu regluna. Við erum öll sammála um að það beri að endurskoða hana og helst afnema. Mér heyrist ekki síst stjórnarþingmenn vera því hlynntir og vil hvetja þá til dáða.

Ég vil líka hvetja forseta þingsins sem er í sama flokki og forsætisráðherra til að beina því til forsætisráðherra að móta strax reglur um hvernig hægt er að byggja undir hlutastörf hjá hinu opinbera og að Stjórnarráðið og ekki síst ráðuneytin — ég reyndi á þeim skamma tíma sem ég var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka á móti fötluðu fólki til að veita því innsýn í bæði störf ráðuneytisins og þeirra stofnana sem þar eru — verði (Forseti hringir.) í fararbroddi við að setja á laggirnar reglur sem umfaðma fólk (Forseti hringir.) sem er með fatlanir með því að fjölga hlutastörfum og auka þannig möguleika fatlaðs fólks til samfélagslegrar þátttöku.“