Skip to main content
AlmannatryggingarFrétt

Samþykkt lög um breytingar á almannatryggingakerfinu

By 24. júní 2024júlí 1st, 2024No Comments
Tengill á umsögn

Alþingi samþykkti um helgina lög sem fela í sér umfangsmiklar breytingar á almannatryggingakerfinu. Um er að ræða breytingar sem munu hafa mikla þýðingu fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka. Vert er að hafa í huga að breytingarnar taka ekki gildi fyrr en 1. september 2025.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneyti félags- og vinnumarkaðsmála munu greiðslur til 95% örorkulífeyristaka hækka með gildistöku laganna. Þó er mikilvægt að taka fram að frumvarpið sneri ekki sérstaklega að kjarabótum og munu ÖBÍ réttindasamtök berjast áfram fyrir þeim, enda rík þörf á.

Einföldun og dregið úr tekjuskerðingum

ÖBÍ réttindasamtök hafa lengi barist fyrir að dregið yrði úr tekjuskerðingum og að örorkulífeyriskerfið yrði einfaldað. Með hinum nýsamþykktu lögum heyrir tekjuskerðing frá fyrstu krónu, áður krónu á móti krónu skerðing, sögunni til. Í staðinn fyrir flóknar reglur um mismunandi tekjuskerðingar fyrir mismunandi greiðsluflokka verður innleidd ein tekjuskerðingarregla fyrir heildargreiðslur til einstaklinga. Þrír greiðsluflokkar samkvæmt núverandi kerfi verða sameinaðir í einn greiðsluflokk sem felur í sér einföldun. Lögin fela í sér aðrar jákvæðar breytingar, þ.á.m. innleiðingu sjúkragreiðslna og meiri stuðning við fólk í endurhæfingu. ÖBÍ fagnar þessum mikilvægu áföngum.

Samþætt sérfræðimat

Í stað núverandi örorkumats mun koma svonefnt samþætt sérfræðimat, þar sem líta á til fleiri þátta en einungis læknisfræðilegs mats, heldur jafnfram andlegrar og félagslegrar færni og umhverfislegraþátta. Samþætt sérfræðimat hefur hins vegar ekki enn verið fyllilega útfært né útskýrt og því kalla ÖBÍ réttindasamtök eftir því að útfærslan liggi fyrir hið allra fyrsta.

Mikilvægt er að taka fram að öll þau sem eru með 75% örorkumat þegar lögin taka gildi, 1. september 2025, munu halda því mati ótímabundið óháð því hvort gildandi örorkumat sé tímabundið eða varanlegt. Þau þurfa því ekki að undirgangast samþætt sérfræðimat nema þau kjósi sjálf að gera það.

Hagsmunabaráttan bar árangur

ÖBÍ réttindasamtök sendu inn ítarlegar umsagnir við frumvarpið. ÖBÍ fór á fundi með velferðarnefnd og eftir bæði umsagnir og fundi, greinarskrif og minnisblöð sem varð m.a. til þess að litið var til í ýmsum þáttum í þeim breytingartillögum sem velferðarnefnd gerði og fékk samþykktar.

Á meðal slíkra breytinga var að heimilisuppbót varð hærri en gert var ráð fyrir í upphafi, ráðherra var falið að gefa Alþingi skýrslu um undirbúning samþætta sérfræðimatsins fyrir 1. maí 2025 og tryggt var að engin með gildandi örorkumat við gildistöku laganna þyrfti að fara í hið nýja mat. Þá var orðið við mikilvægri athugasemd varðandi endurskoðunarákvæði á lögunum en slíkt er nauðsynlegt þegar um jafn veigamiklar kerfisbreytingar er að ræða. Að uppleggi ÖBÍ beindi velferðarnefnd því til ráðuneyta fjármála og félagsmála að regla um áhrif fjármagnstekna maka á greiðslu örorkulífeyrisgreiðlna verði tekin til efnislegrar skoðunar.

Þetta eru allt mál sem ÖBÍ réttindasamtök börðust fyrir við vinnslu málsins og því mikið fagnaðarefni að þessi árangur hafi náðst.