Skip to main content
FréttHúsnæðismál

Seldu húsnæði nauðungarsölu, fengu 65 þúsund upp í kröfu

By 15. desember 2020ágúst 31st, 2022No Comments
Umboðsmaður Alþingis kemst að því í nýlegu áliti að Tryggingastofnun hafi ekki gætt meðalhófs, þegar húseign í eigu viðskiptavinar, var seld nauðungarsölu. Afrakstur Tryggingastofnunar var um 65 þúsund krónur, og þurfti að afskrifa það sem eftir stóð af um 590 þúsund króna kröfu.
Enn á nú þarf umboðsmaður Alþingis að ítreka fyrir TR ríkari leiðbeiningaskyldu sem hvílir á stofnuninni.

Málavextir voru þeir að kona fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun á árinu 2016. Á sama ári aflaði hún tekna erlendis. Að mati stofnunarinnar höfðu tekjurnar í för með sér að hún hafði fengið ofgreiddar bætur á árinu og var henni tilkynnt um það 21. júní 2017. Samkvæmt bréfi Tryggingastofnunar skuldaði A 589.768 krónur eftir að greiðslur vegna ársins 2016 höfðu verið endurreiknaðar á grundvelli skattframtals 2017.

Með innheimtubréfi TR er lögð til endurgreiðslu áætlun.

Konan brást ekki við tilmælum TR í bréfum, um endurgreiðslu, og því var tekin ákvörðun um að senda kröfuna til innheimtu hjá innheimtumiðstöð sýslumanns á Norðurlandi Vestra.

Þar fer krafan í það ferli, að gert er fjárnám, og síðan er fasteign í eigu konunnar seld nauðungarsölu fyrir 23 milljónir króna. Af söluandvirði eignarinnar, fékk innheimtumiðstöðin úthlutað 101.010 krónum. Þegar dregið hafði verið frá þeirri upphæð innheimtuþóknun, fékk Tryggingastofnun í sinn hlut 65 þúsund krónur tæpar. Í kjölfarið voru eftirstöðvar kröfunnar, rúmar 562 þúsund krónur, afskrifaðar.

Konan leitaði í kjölfar sölunnar til umboðsmanns.

Í áliti sínu kemst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið gætt meðalhófs þegar tekin var ákvörðun um að innheimta skuldina með þessum hætti. Reyndar virðist innheimtan hafa farið í ferli nauðungarsölu án vitneskju TR, og hefur TR í kjölfarið farið þess á leit við sýslumann að samstarfssamningur þeirra verði endurskoðaður.

Í niðurstöðu umboðsmanns segir:

„Hvað sem líður heimildum Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur þá ber stofnunin skyldu til að gæta meðalhófs við innheimtuna og veita aðila tækifæri til að endurgreiða stofnuninni áður en mál hans er sent til frekari innheimtu. Á þessi sjónarmið var lögð áhersla í lögskýringargögnum þegar 55. gr. laga nr. 100/2007 var breytt, sbr. lög nr. 120/2009.

Þá leiðir af meðalhófs­reglunni að Tryggingastofnun bar við slíkar aðstæður að meta nauðsyn þess að krefjast nauðungarsölu á fasteign A til fullnustu kröfunnar áður en það var gert. Bar stofnuninni  þá sérstaklega að leggja á það mat hvort önnur úrræði voru tiltæk og gæta þá hófs í vali milli þeirra og velja vægasta úrræðið sem kom að gagni. Bar þá að taka mið af hagsmunum sem voru í húfi í málinu, bæði fyrir A og sem tengdust framkvæmd þess lögbundna verkefnis sem hér um ræðir, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 17. mars 1994 í máli nr. 136/1992, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á blaðsíðu 576, og álit umboðsmanns Alþingis frá 28. ágúst 1990 í máli nr. 161/1989 (SUA 1990:218).“

Þá kemur einnig fram í álitinu að TR hafi ekki verið kunnugt um eðli tekna konunnar, og litið svo á, án rannsóknar, að tekjurnar féllu ekki undir frítekjumörk. Því varð krafan í málinu í raun hærri en átti að vera, þ.e. til innheimtu hefði átt að koma 30% lægri upphæð.

Ljóst er að Tryggingastofnun taldi ekki tilefni til að leiðbeina konunni um rétt sinn samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 til að fá kröfu niðurfellda. Hefur stofnunin í þeim efnum meðal annars vísað til þess að leiðbeiningar til hennar hafi verið í samræmi við almennt verklag og ekki hafi þurft að leiðbeina henni um að hægt væri að sækja um undanþágu frá endurkröfunni, auk þess sem að öllum líkindum hefði ekki verið fallist á niðurfellingu kröfunnar. Af þessu tilefni bendir umboðsmaður á að í samræmi við 37. gr. laga nr. 100/2007 um leiðbeiningar­skyldu Tryggingastofnunar verður að gera ráð fyrir að einstaklingar í sambærilegri stöðu og konan séu almennt betur til þess fallnir en Tryggingastofnun að meta hvort þeir telji rétt að sækja um undanþágu frá endurkröfu vegna eigin aðstæðna og þá með tilliti til þeirra skilyrða sem um hana gilda. Það hefur því ekki afgerandi þýðingu fyrir skyldu stofnunarinnar að þessu leyti hvort hún telji að meiri eða minni líkur séu á að viðkomandi komi til með að fá umrædd réttindi, ef hann getur á annað borð átt tilkall til þeirra.

Í niðurstöðu sinni kemst umboðsmaður svo að orði:

„Það er álit mitt að Tryggingastofnun hafi ekki lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðun sinni um að krefjast nauðungarsölu á fasteign og heimili A við innheimtu kröfu um ofgreiddar bætur. Þannig rannsakaði stofnunin ekki nægilega hvers eðlis erlendar tekjur A voru, auk þess sem stofnunin lét hjá líða að upplýsa A um rétt hennar til að óska eftir undanþágu frá endurkröfunni. Þá láðist stofnuninni að leggja á það mat hvort nauðsynlegt væri að krefjast nauðungarsölu á heimili A, í samræmi við meðalhófsregluna, áður en salan fór fram.  

Að því virtu og eins og mál þetta er vaxið mælist ég til að Tryggingastofnun leiti leiða til að rétta hlut A komi fram beiðni þess efnis frá henni. Að öðru leyti verður það að vera verkefni dómstóla að meta réttaráhrif framangreindra annmarka, ef A kýs að fara með málið þá leið. Jafnframt beini ég því til Tryggingastofnunar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu.“

Í tilefni af þessu áliti umboðsmanns, kom stjórn ÖBÍ saman til að fjalla um málið, og var eftirfarandi ályktun samþykkt:

„Það veldur stjórn ÖBÍ miklum vonbrigðum að enn á ný þurfi umboðsmaður Alþingis að grípa inn í harkaleg vinnubrögð Tryggingastofnunar og benda henni á það hlutverk sitt að hafa hagsmuni skjólstæðinga sinna að leiðarljósi. Sorglegast er þó að tilefnið að þessu sinni hafi verið svo vægðarlausar innheimtuaðgerðir, að heimili viðkomandi var selt nauðungarsölu. Og afraksturinn 65.000 krónur. Það þykir ÖBÍ langt seilst fyrir lítið, gagnvart einstaklingi í neyð.

Umboðsmaður telur einnig tilefni til að árétta enn á ný ríkari leiðbeiningaskyldu Tryggingastofnunar og varfærni gagnvart viðskiptavinum hennar. 

Þrátt fyrir fögur orð í þjónustustefnu sinni, um að veita framúrskarandi þjónustu og að starfsfólk útskýri réttindi fyrir viðskiptavinum TR, er það samt ekki gert. Stofnunin telur það geta vakið „óraunhæfar væntingar“ hjá viðskiptavini að upplýsa um nefnd um niðurfellingar endurkrafna. Umboðsmaður Alþingis bendir hins vegar á það sem öllum ætti að vera ljóst, að enginn er betur til þess fallinn að meta hvort félagslegar aðstæður réttlæta umsókn um niðurfellingu endurkröfu, en viðskiptavinurinn sjálfur. Þess vegna ber stofnuninni að leiðbeina um þessi réttindi sem önnur.

ÖBÍ tekur heils hugar undir með umboðsmanni Alþingis og mælist til þess við TR, að stofnunin taki upp faglegri vinnubrögð gagnvart viðskiptavinum sínum. Að TR  geri viðskiptavin sinn heimilislausan fyrir svo lága upphæð, má aldrei verða endurtekið. Löngu er orðið tímabært að TR sýni skilning á aðstæðum og högum skjólstæðinga sinna.

ÖBÍ hvetur TR til að sýna í verki gildi stofnunarinnar, traust samvinnu og metnað.“