Skip to main content
Frétt

„Viljum að öll börn njóti sama réttar“

By 8. júlí 2018No Comments

„Þetta er sanngirnismál. Við viljum að öll börn njóti sama réttar,“ segir Vera Kristín Vestmann Kristjánsdóttir, í samtali við vef ÖBÍ. Hún er móðir Kristjáns Loga Kárasonar, tólf ára drengs sem greindur er með CP (heilalömun). Hún og faðir Kristjáns Loga, Kári Jóhannesson, unnu í vikunni mál gegn Tryggingastofnun ríkisins. 

Vegna fötlunar Kristjáns Loga varð úr að faðir hans Kári, sinnti honum heimavið. Þegar réttindi í sjúkrasjóði stéttarfélagins voru að fullu nýtt, sótti hann um að fá tekjutengdar greiðslur frá TR til þess að geta sinnt syni sínum. Því var hafnað. Núna, átta árum síðar, hefur héraðsdómur Reykjavíkur dæmt þeim í vil. Ekki er annað að sjá en að í dómnum sé fólginn afdráttarlaus áfellisdómur yfir vinnubrögðum Tryggingastofnunar ríkisins.

Gangi gegn lögum og stjórnarskrá

„Eins og lögin eru í dag þá eru það aðeins foreldrar barna sem eru greind eftir 1. október 2007 sem eiga rétt á tekjutengdum greiðslum. Við kærðum þetta innan TR og bentum á að þessi lög standist hvorki stjórnarskrá né barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna og fleira. Eftir að hafa kært þetta innan TR fór málið fyrir héraðsdóm og síðan til Hæstaréttar þar sem þessu var vísað frá og því aftur fyrir héraðsdóm,“ segir Vera og bætir því við að þetta hafi svo sannarlega ekki verið frábær tími í lífi fjölskyldunnar. Svo hafi dómurinn borist, en þar segir meðal annars:

„Eins og atvikum er háttað hér verður ekki fallist á að það standist málefnalega skoðun að gera greinarmun á rétti til félagslegrar aðstoðar til fjölskyldna barna sem eru fötluð eða alvarlega veik eftir því hvenær fötlun þeirra eða sjúkdómur er greindur.“

Fram kemur í dómnum að Tryggingastofnun hafi verið rótföst í þeirri afstöðu að þar sem Kristján Logi fékk greiningu fyrir 1. október 2007, ættu foreldrar hans ekki rétt á tekjutengdum greiðslum. Hafa má í huga að Kári, faðir Kristjáns Loga, starfar sem kennari sem í dag er ekki talið vera hálaunastarf. 

Önnur börn njóti sama réttar

„Þetta eru miklar gleðifréttir og með þessum dómi er ljóst að foreldrar allra barna eigi að eiga rétt á tengjutengdum greiðslum óháð því hvenær þau eru greind með sín veikindi eða fötlun! Við höfum haldið baráttunni áfram allan þennan tíma til að tryggja að öll börn njóti sama réttar, börn eiga rétt á því að foreldarar geti verið heima og sinnt þeim og þá á ekki dagsetning greiningar eða önnur tímasetning að skipta máli. Börn eiga að fá að vera börn og öll börn eiga að vera jöfn!“ segir Vera og bætir því við að þau hafi ekki höfðað málið peninganna vegna, heldur vegna þess að þetta snúist fyrst og fremst mennsku og sanngirni. 

Áfellisdómur yfir Tryggingastofnun

Í niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur segir meðal annars:

„Við gæslu hagsmuna ríkisvaldsins eða einstakra þátta þess í skiptum við almenna borgara getur það ekki verið hlutverk stjórnvalda að leita allra leiða eða beita öllum brögðum til að fá sýknu fyrir hið opinbera eða til að fá málum vísað frá dómi. Þeim sem falið er að koma fram fyrir hönd ríkisvaldsins í dómsmáli er ekki tækt að verjast með öllum sömu ráðum og einkaaðilum. Þeir sem fara með opinbert vald eða er falið að gæta hagsmuna hins opinbera er trúað fyrir hlutverki sem þeir verða að sinna í almannaþágu og af virðingu fyrir skyldu sinni til að stuðla að réttmætri niðurstöðu. Þar getur tilgangurinn ekki helgað meðalið.“

Þar segir einnig:

„Sá réttur sem í máli þessu er deilt um hvort stefnandi skuli njóta er í raun réttur barns til umönnunar sem því er nauðsynleg til að tryggja velferð þess. Þörf barns fyrir fyrir slíka umönnun er háð ástandi þess en alls ótengd því hvenær sjúkdómur þess eða fötlun er greind eða læknisfræðilega staðfest. […] Eins og atvikum er háttað hér verður ekki fallist á að það standist málefnalega skoðun að gera greinarmun á rétti til félagslegrar aðstoðar til fjölskyldna barna sem eru fötluð eða alvarlega veik eftir því hvenær fötlun þeirra eða sjúkdómur er greindur.“ 

Samkvæmt upplýsingum vefs ÖBÍ frá lögmanni TR í málinu, er dómurinn til skoðunar, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort niðurstöðunni verði áfrýjað til Landsréttar.