Skip to main content
Frétt

Sími ÖBÍ rauðglóandi vegna kjarasamninga

By 4. apríl 2019No Comments
Símalínur Öryrkjabandalagsins hafa verið rauðglóandi í allan morgun, þar sem fólk þyrstir í upplýsingar um áhrif kjarasamninga á almennum markaði á kjör örorkulífeyrisþega. Ekki aðeins hafa fyrirspurnir borist í síma, heldur hefur fjöldi fyrirspurna borist um Facebook síðu ÖBÍ. 

„Við erum ekkert undrandi á því að fólk hafi samband og vilji vita hvaða áhrif þessir kjarasamningar hafa á okkar fólk,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. „Það er ýmislegt jákvætt í þessum samningum, sýnist mér, og eðlilega hefur fólk væntingar til þess að það skili sér til okkar hóps. Ég hef núna í morgun sett mig í samband við stjórnvöld til að fá skýra mynd af því hvernig „lífskjarasamningurinn“ mun bæta kjör örorkulífeyrisþega,“ segir Þuríður Harpa.

Það má nefna að vegna þrýstings frá ÖBÍ þá beitti ASÍ sér mjög fyrir því að ná fram skattalækkunum fyrir tekjulægsta hópinn, sem nú verður að veruleika.

Eins og fyrr segir eru símarnir búnir að vera rauðglóandi á skrifstofu ÖBÍ í morgun og einnig hafa komið fyrirspurnir og hvatning í gegnum síðu ÖBÍ á Facebook. Þar á meðal þetta skeyti:

„Það er margt ánægjulegt í nýju kjarasamningunum, og gott að finna sáttartóninn á milli aðila vinnumarkaðirins. En ein spurning brennur mér á vörum, hvað með öryrkja. Það vakti sérstaka athygli mína að okkar háttvirti forsætisráðherra mintist ekki einu orði á öryrkja. Öryrkjar hafa greitt í sjóði verkalýðsfélagana alla sína ævi þangað til þau lentu í sínu slysi eða veikindum sem hafa valdið örorku. Verkalýðsleiðtogarnir minntust ekki einu orði á öryrkja, Enginn minntist á öryrkja sem er tekjulægsti hópurinn í samfélaginu. Á meðal öryrkja er fullt af einstæðum mæðrum og ferðrum með börn á sínu framfæri sem berjast í bökkunum. Hvaða kjarabætur fá öryrkjar? Öryrkjar geta enga björg sér veitt vegna hinnar illræmdu krónu á móti krónu skerðingar og síðan röð skerðinga sem fara í gang um leið og öryrkjar reyna að stíga út á vinnumarkaðinn. Þetta er mjög letjandi og andstyggilegt kerfi. Það er fjöldi öryrkja sem gæti unnið svolítið til að auka tekjurnar sínar en skrefin inn á vinnumarkaðinn eru illstíganleg vegna þessara skerðinga. Öryrkjar verða að fá að vera með í lífskjarapakkanum. Það verður að afnema krónu á móti krónu skerðinguna og keðjuverkandi skerðingarnar sem henni fylgja.  Öryrkjar þurfa að fá sambærilegar kjarabætur og nú eru boðaða þeim sem lægstar hafa tekjurnar, því öryrkjar tilheyra með réttu þeim hópi. Það er mikilvægt að öryrkjar fái að heyra strax að þeir séu hluti af lífskjarasamningnum og þá hvernig þeirra aðkoma verði að honum.“