Skip to main content
Frétt

Situr enn fastur á hjúkrunarheimili.

By 9. september 2020No Comments
Fréttablaðið birti í morgun, miðvikudag, enn eina fréttina af málum Erlings Smith. Enn situr Erling fastur á hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ, eftir að hafa verið sendur þangað í hvíldarinnlögn fyrir rúmlega tveimur árum. Þrátt fyrir mikla baráttu Erlings, hefur honum orðið lítið ágengt. Við dvöl á hjúkrunarheimili hafa tekjur hans skroppið saman, og nú er svo komið að rekstraraðili hjúkrunarheimilisins gengur nú að eignum Erlings með aðstoð sýslumanns.

 Umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um mál Erlings, og við gert að umtalsefni á þessari síðu. Í áliti sínu sem birtist í janúar 2020, bendir umboðsmaður á að ákvörðun um dvöl á hjúkrunarheimili í stað þess að búa áfram á eigin heimili, hafi veruleg áhrif á líf og réttindi fólks, svo sem greiðslur, þjónustu, daglegt líf og gæti takmarkað persónufrelsi, athafnafrelsi og friðhelgi einkalífs.

Inn í þetta mál fléttast svo að fæst sveitarfélög hafa afgreitt nýja NPA samninga, þar sem jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur ekki samþykkt nýja samninga.

Í samtali við Fréttablaðið segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, að „…það fer enginn inn á hjúkrunarheimili tilneyddur og öllum er frjálst að fara þaðan. Slíkur einstaklingur ætti þá rétt á almennri þjónustu sveitarfélagsins og heilsugæslunnar“.

Hvað bæjarstjórinn á við með „almennri þjónustu sveitarfélagsins“ er ekki gott að segja, en Erling telur sér haldið á hjúkrunarheimilinu, sökum þess að sveitarfélagið vill ekki veita honum NPA samning.

En það er eðlilegt að fólk velti fyrir sér hvers virði réttindalöggjöf er frá Alþingi íslendinga, ef réttindin sem lögin veita, eru háð duttlungum fjárveitingavalds hverju sinni, og því í raun aðeins orðin tóm.