Skip to main content
Frétt

Sjúkraþjálfarar án samnings, endurgreiðslur SÍ óbreyttar

By 13. janúar 2020No Comments

Í samræmi við gerðardóm sem féll í deilu sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga Íslands, munu sjúkraþjálfarar ekki starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar frá og með deginum í dag, mánudeginum 13. janúar. Heilbrigðisráðherra setti reglugerð fyrir nokkrum dögum, sem kemur í veg fyrir að sjúklingar fái ekki notið sjúkratrygginga, og heimilar endurgreiðslu kostnaðar, þó enginn samningur liggi fyrir.

Sjúkraþjálfarar líta á þetta sem ákveðinn sigur í baráttu sinni og að þeir geta frá og með deginum í dag starfað samkvæmt eigin gjaldskrá. Eins og áður segir hefur heilbrigðisráherra birt reglugerð sem heimilar Sjúkratryggingum að endurgreiða kostnað vegna þjónustu sjúkraþjálfara utan samnings. 

Reglugerðin tekur til þjálfunar sem telst læknisfræðilega nauðsynleg og þegar eftirfarandi skil­yrðum er fullnægt:

  1. Þjálfun er nauðsynlegur liður í að greina og meðhöndla vandamál sem orsaka skerðingu á færni.
  2. Þjálfun er nauðsynlegur liður í endurhæfingu eða til að fyrirbyggja frekari færniskerðingu vegna fötlunar, frávika í eðlilegum þroska, langvinnra sjúkdóma eða í kjölfar aðgerða, veik­inda og slysa.

Þátttaka Sjúkratrygginga tekur þó aðeins til þeirra verka sem skilgreind eru í gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands. Heimild þessi gildir til 31. mars næstkomandi.

Í tilkynningu frá Félagi sjúkraþjálfara kemur fram að þannig séu réttindi sjúkratryggðra tryggð og sjúkraþjálfarar geti áfram verið í rafrænum samskiptum við SÍ varðandi endurgreiðsluhluta skjólstæðinga þótt ekki sé samningur í gildi.

Félagið segir áhrif á skjólstæðinga verða minniháttar, þar sem rafræn samskipti verða óbreytt við SÍ og skjólstæðingar njóta beinnar niðurgreiðslu eins og áður, en vænta má einhverra gjaldskrárbreytinga, þar sem sjúkraþjálfarar setja sínar eigin gjaldskrár.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ÖBÍ hefur aflað sér, verður hækkun hjá flestum sjúkraþjálfara um 350 krónur á tímann, í formi komugjalds. Þetta er um 5% hækkun, en heyrst hefur að einhverjir sjúkraþjálfarar muni hækka meira, jafnvel allt að 20%.