Skip to main content
FréttSjúkratryggingar

Sjúkratryggingar túlka reglugerð um hjálpartæki of þröngt.

By 9. mars 2021september 1st, 2022No Comments
Umboðsmaður Alþingis hefur gefið álit í máli Önnu Guðrúnar Sigurðardóttur, sem skaut úrskurði Úrskurðarnefndar velferðarmála til hans. Úrskurðarnefndin hafði staðfest niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands um synjun á styrk til kaupa á hjálpartæki fyrir hjólastól.

Synjun Sjúkratrygginga byggðist fyrst og fremst á því að umrædd hjálpartæki, sem gerði það að verkum að hægt var að nota hjólastólinn sem reiðhjól, væri Önnu ekki nauðsynlegt til daglegs lífs. Í úrskurði Úrskurðarnefndar velferðarmála kom fram að „þótt hjálpartækið gæti talist hentugt fyrir Önnu Guðrúnu þá gæti það ekki talist nauðsynlegt eins og áskilið væri í lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Þá yrði umsóknin ekki samþykkt á þeim grundvelli að um væri að ræða hjálpartæki til þjálfunar…“

Öryrkjabandalagið var Önnu Guðrúnu til aðstoðar í þessu máli, og var m.a. farið fram á það við úrskurðarnefndina að taka málið á ný til meðferðar, en nefndin synjaði því. Sú afstaða nefndarinnar byggðist einkum á því að ekki væri fallist á að túlkun hennar á viðkomandi lagagrein væri röng, og einnig hafi nefndin gert grein fyrir því í fyrri úrskurði að það hafi verið afgerandi fyrir niðurstöðunni að Anna Guðrún „væri fær um að komast ferða sinna án þess“

Úr úrskurði nefndarinnar:

„Í umsókn kæranda kemur fram að hjálpartækið muni auka möguleika hennar á líkamsrækt og auka aðgengi hennar. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmál er hjálpartækið til þess fallið að aðstoða hana við að takast á við umhverfi sitt og eykur færni hennar og sjálfsbjargargetu. Verður [greiðsluþátttöku] því ekki synjað á grundvelli þess að það sé eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar, sbr. 1.mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1155/2013, enda ljóst að hjálpartækið nýtist kæranda í öðrum tilvikum en eingöngu [til] líkamsræktar. Þrátt fyrir að hjálpartækið geti verið hentugt fyrir kæranda þá telur úrskurðarnefndin aftur á móti að ekki verði ráðið af gögnum málsins að hjálpartækið sé henni nauðsynlegt líkt og áskilið er í 2. málsl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008. Kærandi virðist til að mynda vera fær um að komast ferða sinna án hjálpartækisins.“

Í áliti sínu vísar umboðsmaður til markmiða laga um sjúkratryggingar, í fyrstu grein þeirra segir að „Markmið laga þessara er að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði…“ Þegar þessi grein er skýrð verð að líta sérstaklega til þess hvað „heilbrigði“ er.  Í fyrstu grein laga nr. 20/2007, um heilbrigðisþjónustu segir að  „Markmið þeirra er að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði í samræmi við ákvæði laga þessara, [lög um sjúkratryggingar]…“

Þá segir umboðsmaður: „Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum verður að ganga út frá því að þegar tekin er afstaða til þess hvort hjálpartæki teljist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs í skilningi 26.gr. laga nr. 112/2008 þá beri að túlka það á þann veg að notkun tækisins ná þeim tilgangi að vernda andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði sjúkratryggðra í víðtækum skilningi, og þá í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undirliggjandi.“

Þá telur umboðsmaður vera tilefni til að minna á að á síðustu árum hefur fötluðu fólki verið búin aukin réttarvernd á grundvelli fjölþjóðlegra samninga og í lögum sem meðal annars leggja áherslu á að virðing sé borin fyrir sjálfsákvörðunarrétti þess, og á þar m.a. við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Það er því álit umboðsmanns að við túlkun úrskurðarnefndar velferðarmála þess efnis að hjálpartæki teljist ekki nauðsynlegt ef sjúkratryggður kemst af án þess, sé „þrengt með of fortakslausum hætti að því mati sem orðalag ákvæðisins felur í sér með hliðsjón af tilgangi ákvæðisins og þeim réttindum sem eru undirliggjandi.“

Umboðsmaður beinir því svo til nefndarinnar að hún taki mál Önnu Guðrúnar til meðferðar að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá henni. Anna Guðrún lést áður en álit umboðsmanns lá fyrir og náði því ekki að lifa þennan góða sigur í máli sínu. En fordæmið er komið, og hennar verður lengi minnst sem brautryðjanda.