Skip to main content
Frétt

Skattsvik margfalt meiri en bótasvik

By 15. júlí 2019No Comments

Í frétt Stundarinnar sem birtist á vef hennar 12. júlí síðastliðinn, kemur fram að í nýlegu svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar um skattaundanskot, hafi ríkið orðið af um 80 milljörðum á tímabilinu 2010 til 2013 vegna skattaundanskota. Stundin ber þessar tölur saman við skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2013, þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að bótasvik næmu um 2 – 3,4 milljarða ár hvert. Þær niðurstöður Ríkisendurskoðunar voru reyndar gagnrýndar nokkuð og að alvarlegir annmarkar væru á greiningu stofnunarinnar. Ríkisendurskoðun viðurkenndi í kjölfarið að mistök hafi verið gerð í framsetningu.

Samkvæmt frétt Stundarinnar vann endurskoðunarfyrirtækið Deloitte skýrslu í samvinnu við dönsk stjórnvöld á svipuðum tíma, þar sem niðurstaðan var að bótasvik væru metin undir einu prósenti af heildarfjárhæð bótagreiðslna. Það er svipað hlutfall og ríkisendurskoðun Bretlands hefur metið umfang bótasvika þar í landi. Heimfært upp á íslenska bótakerfið, þýðir það að fjárhæð bótasvika er undir einum milljarði árin 2010 til 2013, en rétt yfir milljarði undanfarin ár, samkvæmt Stundinni.

Í frétt Stundarinnar segir svo: „Ef miðað er við neðri mörkin í hinu umdeilda mati Ríkisendurskoðunar þýðir það að kostnaður af skattsvikum kann að hafa verið 40 sinnum meiri en kostnaður af bótasvikum á tímabilinu 2010 til 2013. Sé áætlað umfang bótasvika samkvæmt mati Deloitte og ríkisendurskoðunar Bretlands heimfært á Ísland og borið saman við mat starfshóps fjármálaráðherra frá 2017 er munurinn undanfarin ár meira en hundraðfaldur.“