Skip to main content
Frétt

Skerðing sem bitnar á barna­fjöl­skyldum

By 24. október 2018No Comments
Grein í Fréttablaðinu 24. október 2018. Höfundar: Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi hjá Öryrkjabandalagi Íslands og Oktavía Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi hjá Félagi einstæðra foreldra. 

Einstæðir foreldrar með tvö eða fleiri börn undir 18 ára aldri geta fengið greidd mæðra-/feðralaun að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í apríl fengu rúmlega 2200 foreldrar þessar greiðslur frá Tryggingastofnun.  Tekjuskerðingar koma hins vegar í veg fyrir að þessi stuðningur nái til hóps tekjulágra einstæðra foreldra.

Samspilið við framfærsluuppbót til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Um þriðjungur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega fær greidda framfærsluuppbót hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR)  til að  ná upp í skilgreinda lágmarksframfærslu. Upphæð framfærsluuppbótar getur verið allt að rúmum 60 þúsund kr. á mánuði.  Allar skattskyldar tekjur, þar með talin mæðra- og feðralaun, skerða framfærsluuppbótina „krónu á móti krónu“.  Til að útskýra samspilið betur eru tvö dæmi sett upp í töflu.

Dæmi um mánaðarlegar greiðslur til örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþega með engar aðrar tekjur en lífeyrisgreiðslur frá TR á árinu 2018. Örorkumat við 40 ára aldur.

Greiðslutegundir

Einstætt foreldri með

2 börn

Einstætt foreldri með

3 eða fleiri börn

Barnlaus einstaklingur

Bótaflokkar almannatrygginga

195.272

195.272

195.272

Mæðra-/feðralaun

9.602

24.965

0

Framfærsluuppbót

33.720

18.357

43.322

Greiðslur alls fyrir skatt

238.594

238.594

238.594

Útborgað

204.352

204.352

204.352

 
Eins og fram kemur í dæminu bæta mæðra- og feðralaun engu við ráðstöfunartekjur einstæðra foreldra þegar þau skerða framfærsluuppbótina „króna á móti krónu“. Jafnvel þó foreldrið í dæminu væri með 30 til 40 þúsund kr. á mánuði annars staðar frá, t.d. frá lífeyrissjóði eða atvinnutekjur, væru tekjurnar þær sömu. Á þetta sérstaklega við í tilviki einstæðra foreldra með lægstu tekjurnar.
 

Þó svo að mæðra- og feðralaun séu lág þá skipta þau máli, ekki síst fyrir barnafjölskyldur sem ströggla með tekjur eins foreldris allt árið um kring.  Í stjórnarsáttmálanum segir að sérstaklega þurfi að huga að stöðu barna sem búa við fátækt en þau eru einn viðkvæmasti hópur samfélagsins. Mesti skortur mælist hjá börnum foreldra í lægsta tekjubilinu og á heimilum þar sem atvinnuþátttaka er lítil, en slíkt á iðulega við um örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Húsnæðisstaða foreldris eða foreldra hefur einnig mikið að segja.

„Króna á móti krónu“ skerðing hittir verst fyrir þá sem síst skyldi. Ef stjórnvöld vilja vinna gegn fátækt ættu þau að afnema þessa skerðingu, en samstaða er á Alþingi um mikilvægi þess.

Í september síðast liðnum var mælt fyrir frumvarpi um afnám „krónu á móti krónu“ skerðingar gagnvart öllum skattskyldum tekjum. Frumvarpið er nú í umsagnarferli hjá velferðarnefnd alþingis. Við hvetjum þingmenn allra flokka til að leggja sitt af mörkum til að þingmálið fái skjóta afgreiðslu og „króna á móti krónu“ skerðing verði aflagðar nú þegar.