Skip to main content
FréttKjaramál

Skerðingar vegna útgreiðslu séreignarsparnaðar leiðréttar

Búið er að leiðrétta skerðingu greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins vegna útgreiðslu séreignarsparnaðar á tímabilinu 1. apríl til 31. desember 2020 og frá 12. maí til 31. desember 2021, samkvæmt upplýsingum frá Skattinum.

Útgreiðsla séreignarsparnaðar á þessu tímabili átti ekki að hafa áhrif á lífeyrisgreiðslur (framfærsluuppbót) frá TR  en vegna rangrar skráningar í framtali voru greiðslur til fjölda fólks skertar.

Samkvæmt svari félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá því síðasta sumar hafði séreignasparnaður áhrif til lækkunar á framfærsluuppbót á tímabilinu sem um ræðir.

Heildarupphæð krafna þeirra 207 lífeyrisþega sem urðu fyrir lækkun greiðslna vegna úttektar á séreignarsparnaði nam 25.449.264 kr. Búið er að leiðrétta þetta.

Leiðréttingin gat ekki náð til barnabóta og húsnæðisbóta vegna útgreiðslu séreignasparnaðar á tímabilinu.

Ef einhver telur sig ekki enn hafa fengið leiðréttingu á sinni stöðu er viðkomandi beðinn að hafa samband.