Skip to main content
Frétt

Skynsama fólkið

By 17. nóvember 2018No Comments

Hugleiðingar Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur, formanns ÖBÍ eftir lestur á opnu bréfi Jokku til Bjarna Benediktssonar. Jokka bendir réttilega á  margt sem má og verður að fara betur. Við vitum að alltof margir örorkulífeyrisþegar og börn þeirra eru nákvæmlega í þessari ömurlegu stöðu: Búa við samfélag sem hefur litla burði til að aðstoða m.a. fólk sem er veikt á geði. Fatlað fólk á mjög erfitt með að fá störf við hæfi og viðeigandi aðlögun á atvinnumarkaði. Menntakerfið hefur ekki burði til að sinna sínu hlutverki gagnvart börnum með fatlanir og raskanir. Fátækt útilokar og jaðarsetur fatlað fólk enn frekar. Húsnæðismarkaðurinn er sprunginn. Og ekki er annað að sjá en að helstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu að fresta þáttum sem gætu bætt hag öryrkja. Á sama tíma horfum við upp á lækkun gjalda þeirra sem mest mega sín, eins og stórútgerðarinnar. 

Skynsama fólkið

Stundum… eða nei, alltaf væri stjórnvöldum hollt að hlusta aðeins betur á þá sem þurfa að lifa af smánarlega lágri framfærslu sem „skynsama“ fólkið á Alþingi skammtar veiku og fötluðu fólki, af vanþekkingu, hroka og yfirlæti. Svei því fólki sem á ekki samkennd til, en er samt á Alþingi fyrir allt fólk í landinu. Og ég spyr tilhvers er fullveldi ef fólkinu líður illa í landinu?

Ég held að fjármálaelítunni á Alþingi væri hollt að skoða alvarlega þá stöðu sem fatlað og veikt fólk er í, skoða þá stöðu sem börn fátæks fólks alast upp við. Skoða og skilja vonleysi fólks þegar kerfið – „skynsama“ fólkið – beitir beinlínis ofbeldi með því að halda samferðafólki sínu á okkar litla skeri í öngstræti fátæktar, þegar allt er tekið af fólki og á endanum sjálfsvirðing þess moluð mélinu smærra.

Svo er „skynsama“ fólkið alveg undrandi á því að ungt fólk finni ekki tilgang, að börn alin upp í mikilli neyð villist af braut, að fullorðið veikt og fatlað fólk eigi ekki orku afgangs til að berjast fyrir lífi sínu áratugum saman.

Í mínum huga er þetta „skynsama“ fólk búið að eyðileggja merkingu orðsins skynsemi. 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands