Skip to main content
FréttMálþing og ráðstefnur

Stærsta fötlunarfræðiráðstefna Norðurlandasögunnar haldin í Reykjavík

Ráðstefna Nordic Network on Disability Research (NNDR) hefst á Grand Hótel í Reykjavík á morgun og stendur fram til föstudags. Þetta er sextánda ráðstefnan sem NNDR heldur og verður hún stærsta fötlunarfræðiráðstefna í sögu Norðurlandanna og mögulega heimsins alls.

Ráðstefnan er vettvangur bæði fræðslu og samskipta á milli fræðafólks, hagsmunasamtaka, fagfólks, yfirvalda og annarra. Þátttakendur koma frá hinum ýmsu heimshornum. Til að mynda Norðurlöndunum, Evrópu og Norður-Ameríku.

Alls stendur til að kynna um 500 rannsóknir í fjölda málstofa auk þess sem alþjóðlegir sérfræðingar halda fróðlega fyrirlestra um fötlunarfræðirannsóknir, strauma og stefnur. Viðfangsefnið tengist ýmsum sviðum í lífi fatlaðs fólks.

Á meðal fyrirlesara eru Marjorie Aunos, doktor í sálfræði sem hefur rannsakað stöðu fatlaðra foreldra, Theresia Degener, prófessor í fötlunarfræði við Bochum Center for Disability Studies í Þýskalandi, en hún hefur um árabil verið formaður eftirlitsnefndar við samning Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Rannveig Traustadóttir, prófessor emerita við Háskóla Íslands.

ÖBÍ réttindasamtök hafa styrkt fulltrúa aðildarfélaga til þátttöku í ráðstefnunni. Nánar má lesa um viðburðinn á nndr2023.is.